150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[18:21]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Síðustu spurningu hv. þingmanns, herra forseti, er fljótsvarað: Nei, það er ekki verið að breyta kirkjuskipun. Þetta er einfalt mál sem lýtur að því að umræddir starfsmenn séu ekki lengur opinberir starfsmenn heldur starfsmenn þjóðkirkjunnar.

Þetta voru nokkrar spurningar og náttúrlega ágætar. Það er ágætt og mjög skemmtilegt að vera í svona hugarleikfimi um það hvaða ákvæði gætu uppfyllt þessa kröfu stjórnarskrárinnar sem við höfum talað um og það er ágætt að fjalla um reikningsskil, bókhald og endurskoðun í því stóra samhengi öllu saman. Það er alveg pláss fyrir það, eftir því sem menn kjósa, og það er ágætt. En ég tek fram að ég var ekkert að ýja að neinu eins og mér heyrðist hv. þingmaður segja varðandi upptalningu á einhverjum verkefnum eða fyrir hvað væri verið að greiða. Ég held að það liggi allt saman fyrir. Ég átta mig a.m.k. ekki á hverju sé við það að bæta eða ef um slíkt er að ræða er það bara samkomulagsatriði eftir atvikum á milli þeirra aðila sem standa að hinum svokallaða viðbótarsamningi sem er til umfjöllunar í því frumvarpi sem við erum hér að fjalla um.