150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[21:37]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Það er ekki markmið mitt að grafa undan kristinni trú. Ég held að trúarbrögð sjái nú um það sjálf. En ég vil endilega dreifa trúarritum sem víðast og reyndar bókum almennt og hef reyndar staðið í því stóran hluta ævi minnar. En ég spurði einnar spurningar sem var hvort hv. þingmaður hefði séð eitthvað í frumvarpinu sem benti til þess að dagsetningin væri það mikilvæg að það þurfi að drífa málið í gegnum þingið á þessum handahlaupum, hvort það skipti raunverulega máli. Ég vil að vísu nota tækifærið til að benda hv. þingmanni á að 17. gr. í frumvarpinu inniheldur þau atriði sem snúa að kjörum presta. Þetta er nokkuð skýrt þar. En ef hann var ekki búinn að lesa 17. gr. er kannski óvíst hvort hann geti svarað spurningum um mikilvægi dagsetningarinnar. Ég hef fyrir mitt leyti ekki séð neina sérstaka ástæðu fyrir því að þetta þurfi endilega að klárast. Vissulega myndi það tefja gildistöku viðbótarsamningsins. En gott og vel. Slíkt gerist kannski stundum þegar samningar koma of seint fyrir þingið og það er kannski lykilatriðið.