150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[21:38]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Þessari spurningu verð ég væntanlega að svara eins og gamall kerfiskarl. Það er talið æskilegra þegar verið er að breyta uppbyggingu og kerfum sem vinna allt árið að það sé gert við áramót vegna þess að flækjustigið við annað er bara meira en góðu hófi gegnir. Þar sem Píratafélagið er framarlega í tölvuvinnslu og slíku held ég að þeir geri sér grein fyrir því öðrum mönnum meir og betur að flækjustigið sem fylgir því að taka slíkt upp á miðju ári eða við ársþriðjung eða -fjórðung er bara meira en góðu hófi gegnir og það hefur líka áhrif á fjárlagaframsetningu og ýmislegt annað. Ég hygg að það sé kannski það sem ráði því að hér sé miðað við þessa tímasetningu. Að vísu er talað um að kirkjuþing staðfesti o.s.frv. á vormánuðum en það er kannski það sem ég tel að liggi þarna til grundvallar. Ég gagnrýni það hins vegar mjög að málið skuli ekki hafa komið fram fyrr til þess að við gætum farið betur yfir það.