150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[11:20]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að segja að ég er fylgjandi þessu máli, þannig meint að ég er með því að þeir sem starfa á vegum þjóðkirkjunnar verði starfsmenn hennar. Ef horft er til þjóðkirkjunnar veitir hún fjölbreytta þjónustu. Á vefsíðu hennar eru ýmsar gagnlegar upplýsingar og þar má finna, með leyfi forseta, eftirfarandi:

„Þjóðkirkjan er evangelísk-lúthersk kirkja. Hún er frjálst og sjálfstætt trúfélag sem starfar um allt land. Allir landsmenn geta tilheyrt henni. Þéttriðið net sókna um land allt tryggir að þjónusta kirkjunnar nái til landsmanna allra. Þjóðkirkjan er opin öllum, allir eiga aðgang að þjónustu hennar og eru ekki krafðir um trúarafstöðu.“

Það má því segja að þjóðkirkjan fylgi hverju mannsbarni frá vöggu til grafar.

Í frumvarpinu sem hér er til umræðu er sérstaklega verið að ræða lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og lög um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Það er sem sagt verið að skerpa á þessum atriðum. Ég get samt sem áður vissulega tekið undir þau orð að málið er mjög svo seint komið fram og okkur er gefinn fullknappur tími til að ræða þetta mikilvæga mál. Ég er einnig nokkuð sammála því að nauðsynlegt sé að frumvarpið fái nægt rými með tilliti til umsagnartíma og gestakoma.

Það eru mörg verkefni sem þjóðkirkjan sinnir og efst í mínum huga er fræðsluhlutverkið sem þjóðkirkjan hefur. Það er býsna öflugt og snertir alla aldurshópa. Við verðum sjálfsagt flestöll vör við fermingarfræðslu sem fer fram á hverju ári hringinn í kringum landið. Alla vega einhver okkar sem erum hér munum vel eftir þeim tíma þegar við gengum til prestsins. Vissulega voru það ekki alltaf skemmtilegustu stundirnar en ég er nokkuð viss um að enginn hefur gleymt þeim tímum. En það er ekki aðeins fermingarfræðslan sem einkennir hvað mest fræðslustarf kirkjunnar þó svo að hún sé hvað mest áberandi. Það er einnig ýmis fræðsla fyrir fullorðna og börn. Svokallaðir foreldramorgnar eru vel þekktir og einnig er þjóðkirkjan með fræðslu um sorg og sorgarviðbrögð og starf eldri borgara er vel sótt, að ég best veit, enda er það byggt á samfélagslegum grunni sem og trúarlegum í bland. Ég sjálf man sérstaklega vel eftir sunnudagaskólanum í Zíon. Zíon var hús við Hólabraut á Akureyri sem nú hýsir RÚV á Norðurlandi. Þar var ég ásamt fjölda annarra barna á samkomum sem haldnar voru fyrir okkur. Ég man sérstaklega eftir biblíumyndunum, lögunum sem við sungum og ekki minnst myndskreyttu lofti sem var í Zíon-húsinu, sem því miður er búið að mála yfir með hvítri, mattri málningu. Þetta var vissulega útúrdúr. Í seinni tíð hef ég notið þjónustu kirkjunnar bæði í gleði og sorg, eins og gengur. Ég fagna því sérstaklega og sannarlega að það eigi að skerpa umgjörð í kringum þjóðkirkjuna. Ég vona innilega að þetta frumvarp til laga sem við ræðum hér verði til þess að um hana skapist nokkur friður, þó svo að ég geri mér jafnframt fulla grein fyrir því að þjóðkirkjan er lifandi eins og hún er og hún verður alltaf umtöluð og jafnvel umdeild. En þannig náum við áfram um þau mál sem við hugum að hverju sinni.

Ég get í þessu sambandi gagnrýnt kirkjuna fyrir það atriði að einungis er hægt að notast við líkbrennslu hér á höfuðborgarsvæðinu. Ég hef oft velt því fyrir mér hvort það sé réttlátt að fólk hringinn í kringum landið þurfi að flytja suður til þess að fá þessa þjónustu kirkjunnar. Ég vil meina að kirkjan þurfi að gera betur í þessum efnum, sérstaklega núna þegar við sjáum að aukinn hluti landsmanna kýs bálfarir. Við getum svo velt því fyrir okkur af hverju fólk kýs þær umfram annað. Hugsanlega eru það fjármál sem spila inn í. Það er mjög dýrt að standa að jarðarförum og á sama tíma er spurning hvort það eigi að vera einhvers konar jöfnunargjald fyrir það fólk sem kýs líkbrennslu á suðvesturhorninu.

Ég vel að nálgast frumvarpið með þeim hætti að það sé tæknilegt í þeim skilningi að verið er að uppfæra orðalag og samræma við tímann sem við lifum í dag. Þess vegna er verið að breyta orðalagi eins og að skipa í embætti og tengd orð. Nú á að tala um störf og þjónustu. Það er einnig fjallað um launagreiðslur og þess háttar hluti sem þarf vissulega að færa til nútímans. Það er sem sagt verið að skýra hlutverk þjóðkirkjunnar og það tengist fjármálum kirkjunnar. Umræðan í gær snerist töluvert um fjármál kirkjunnar, hversu óskýr fjármálin í kringum kirkjuna hafa verið, og ég er sammála því. Ég vonast til þess að með þessu regluverki sem við erum að ræða hér verði skerpt á þeim hlutum. Ég er fullkomlega sammála því að það eigi að auka fjárhagslegt sjálfstæði þjóðkirkjunnar og einfalda allt lagaumhverfi sem þetta frumvarp boðar.

Í lokin hefði ég þó viljað að tekið væri skýrar fram að frumvarpið hefði ekki áhrif á stöðu eða jafnrétti kynjanna í staðinn fyrir að sagt sé að ekki sé gert ráð fyrir því. En þetta er sjálfsagt bara spurning um orðalag og ég vona að það merki það sama. Í gær var umræða um orðið þjóðkirkja. Einhverjum fannst það ekki nógu viðeigandi og vildi jafnvel halda því fram að við ættum að nota orðalag á borð við kirkja fólksins. En mér finnst þjóðkirkja einmitt vera mjög fallegt orð sem umlykur allt fólk sem býr í þessu landi. Ég geri mér líka grein fyrir því að þjóðkirkjan gegnir uppeldishlutverki. Mér finnst það ríma vel við þau gildi sem fólkið í landinu vill búa við. Ég ætla að láta þetta duga að sinni og ég vona að þetta frumvarp nái fram að ganga.