150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[16:11]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er svo margt sem mig langar að spyrja um. Byrjum á notkun varasjóða og tilefni þess að kalla eftir auknum fjárheimildum í fjáraukalögum. Tökum sem dæmi breytingartillögu um 18,7 milljónir vegna myglu í húsnæði landlæknis. Af hverju er þetta ekki bara hluti af varasjóðnum í staðinn fyrir að fara alla leið inn í fjáraukalög og til afgreiðslu hjá þinginu? Það var 5,1 milljarður sem hefði verið hægt að taka 18,7 milljónir af til að nýta án þess að þurfa að fara í málefnalegan flutning í stuttu máli á 18,7 milljónum. Svo er það annað mál sem kom fyrir nefndina og varðaði uppgreiðslu á orlofi. Man ég ekki rétt að á síðasta ári hafi einmitt verið teknar inn skuldbindingar vegna uppsafnaðs orlofs hjá mismunandi stofnunum? Ef það er búið að safna upp fullt af orlofstímum eru það skuldbindingar sem þurfa að koma fram og þarf að jafna út í reikningum stofnunarinnar. Ef til þess kemur að það þurfi allt í einu að borga út þetta uppsafnaða orlof, þá eru til peningar fyrir því. Það þarf ekki að fara í fjárauka til þess.