150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[20:42]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er eiginlega ekki annað hægt þegar hv. þm. Þorsteinn Víglundsson hefur komið hingað upp og talað eins og hér sé allt að fara til fjandans og hér sé varla búandi en að koma aðeins upp. Ef það skyldi nú svo ólíklega vilja til að einhver sé að horfa og hlusta, sem ég held að sé harla ólíklegt á þessum tíma, held ég að sé ástæða til að rifja upp fyrir hv. þingmanni að það er rétt um mánuður síðan matsfyrirtækið Moody's hækkaði lánshæfiseinkunn ríkissjóðs um eitt þrep — úr A3 í A2 — vegna þess að horfur væru mjög stöðugar. Moody's tilgreindir tvær meginástæður fyrir hækkuninni, annars vegar umtalsverða og viðvarandi skuldalækkun ríkissjóðs og góða stöðu í samanburði við önnur ríki með sama lánshæfismat og hins vegar aukinn viðnámsþrótt efnahagslífsins sem eykur þol hagkerfisins gagnvart áföllum. Stöðugar horfur endurspegla væntingar um að áfram verði byggt á þeim árangri sem náðst hefur. Í tilkynningunni bendir matsfyrirtækið á að skuldir ríkisins hafi, með leyfi forseta, „lækkað verulega síðan 2011 og frá fjármálahruni mest allra meðal ríkja sem fyrirtækið metur. Bætt umgjörð ríkisfjármála, m.a. með innleiðingu laga um opinber fjármál, hjálpar til við að varðveita þann árangur. Ávinningur af einkavæðingu fyrirtækja í opinberri eigu gæti styrkt efnahagsreikning ríkisins enn frekar að mati Moody‘s.“

Ég hygg að við hv. þingmaður getum verið mjög sammála um þann punkt.

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður kvartar ítrekað yfir því að þjóðhagsspá sé of bjartsýn. Það er nú einfaldlega þannig að okkur er samkvæmt lögum um opinber fjármál falið að fylgja þjóðhagsspánni. Auðvitað hefur Viðreisn skoðanir á því og vill spá fyrir einhvern veginn öðruvísi. En ég tel reyndar mjög mikilvægt að við fylgjum lögum um opinber fjármál og fylgjum þeim spám sem liggja fyrir og velti því fyrir mér hvort hv. þingmaður sé raunverulega að leggja það til að (Forseti hringir.) Viðreisn spái fyrir um hagvöxt eða að við fylgjum einhverri annarri spá en þeirri sem kemur þó frá þeim aðila sem við höfum falið þetta verkefni.