150. löggjafarþing — 47. fundur,  17. des. 2019.

endurskoðun á ráðstöfun almannafjár við gæðastýringu í sauðfjárrækt.

32. mál
[13:30]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég dreg allt hrós til baka. Nei, en aðeins til að útskýra mál mitt hér áðan skil ég vel að hv. þingmaður árétti sína skoðun þegar ég læt svona orð falla. Eðlilega telur hv. þingmaður að tillagan sem hún og samstarfsfólk hennar í Viðreisn stóð að hafi verið fullgild og best ef hún hefði verið samþykkt. Hv. þingmaður vísaði í söguna og þróunina og að einhverjir teldu að það þyrfti olnbogaskot til að koma málinu áfram en skoðun mín er sú að á allra síðustu árum hafa verið stigin skref í þessa átt. Það mikilvægasta sem úr þeim náðist var sú umfangsmikla gagnasöfnun á þróuninni sem nú á sér stað. Ef tillagan hefði farið óbreytt í gegn hefði ég talið að því hefði öllu verið kippt úr sambandi og að við hefðum verið á þeim stað að sjá ekki þá þróun sem orðið hefur með þeim gögnum sem munu koma úr GróLind. Fyrstu gögn áttu að koma í síðustu viku en var frestað vegna veðurs og koma ekki fyrr en í upphafi næsta árs. Þess vegna taldi ég að tillagan yrði knúin fram með sleggju þar sem dúkkhamar dygði.

Hins vegar er ég sammála hugmyndafræðinni á bak við tillöguna, eins og ég rakti áðan, að tengja hana við umhverfisráðuneytið og náttúruverndarlög. Þess vegna fannst mér svo mikilvægt að við næðum fram þeirri hugmyndafræði með þeirri tillögu sem meiri hlutinn leggur hér fram. Svo er bara eðlilegt að við hv. þingmaður séum ósammála um akkúrat frumtillöguna en ég fór heldur ekki ofan af því á fundum nefndarinnar að mér fyndist hún þannig að ég gæti ekki stutt hana óbreytta þó að ég styddi hugmyndafræðina á bak við hana.