150. löggjafarþing — 49. fundur,  20. jan. 2020.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan.

[16:30]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Hann sagði reyndar að ég hefði ekki rætt sérstaklega um aðgerðir til jöfnunar en ég fór einmitt yfir hver þróunin hefur verið í því. Þróunin á árinu 2018 var sú að ráðstöfunartekjur að teknu tilliti til fjármagnstekna, sem við hv. þingmaður höfum oft rætt, jukust hlutfallslega mest hjá neðstu tekjutíundinni og minnkuðu hjá efstu tekjutíundinni. Í raun sjáum við aukinn jöfnuð á árinu 2018 og það sama kemur fram í Gini-stuðlinum.

Hv. þingmaður nefnir þriggja þrepa skattkerfið sem ég er mjög ánægð með og ég tel það góða útfærslu á þeim skattalækkunum sem eru að koma til framkvæmda, hvernig þær skila sér. Hefði ég viljað fjórða þrepið? spyr hv. þingmaður. Ég hef lagt meiri áherslu á þá aðgerð sem var gripið til í upphafi þessa kjörtímabils sem var að hækka fjármagnstekjuskatt. Á það hef ég lagt meiri áherslu í þessum skattaaðgerðum og ég tel að það sem við höfum gert nú þegar sé allt til þess fallið að kalla fram aukinn jöfnuð og ég tel að tölurnar sýni það nú þegar.