150. löggjafarþing — 49. fundur,  20. jan. 2020.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan.

[20:00]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður er ötull baráttumaður gegn fátækt og vil ég hrósa honum sérstaklega fyrir að halda þeirri baráttu áfram. Ég er að velta fyrir mér varðandi fátækt í samfélaginu. Hv. þingmaður nefndi hana. Í ljósi þess að Ísland er u.þ.b. tíunda ríkasta land í heimi þá er sú fátækt sem er staðreynd hér á landi hneyksli. Það eru allir sammála um það í þessum sal. Fyrir jólin bárust fréttir um að Rauði kross Íslands reki sérstakan sjóð sem heitir sárafátæktarsjóður. Ég vil biðja fólk um að velta þessu fyrir sér, sárafátæktarsjóður í tíunda ríkasta landi í heimi. Nú búa í þessu ríka samfélagi um 6.000 íslensk börn við fátækt. 70% öryrkja þurfa að lifa undir 300.000 kr. Öryrkjabandalag Íslands gaf umsögn um nýjustu fjárlög þessarar ríkisstjórnar. Hér kemur bein tilvitnun þar sem Öryrkjabandalagið segir sjálft, frú forseti:

„Allir málaflokkar sem varða fatlað fólk og örorkulífeyrisþega eru sveltir …“

Allir málaflokkar sveltir. Þetta segir Öryrkjabandalagið um nýjustu fjárlög þessarar ríkisstjórnar. Þetta er að gerast á vakt Vinstri grænna og Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins og í ofanálag berast þær fréttir núna að um 8.000 manns eru atvinnulausir og hefur hlutfall atvinnulausra tvöfaldast síðan þessi ríkisstjórn tók við. Þessi fjöldi atvinnulausra er meiri en allur íbúafjöldi Vestfjarða. Ég vil því spyrja hv. þingmann í þessu samhengi, og ég veit að hann er sammála mér: Hvaða leiðir telur hann að séu í raun og veru bestar til að berjast gegn þessari skelfilegu fátækt sem allt of margir í þessu (Forseti hringir.) ríka samfélagi búa við en ættu ekki að þurfa þess?