150. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2020.

fé til rannsókna fjármálamisferlis.

[13:46]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ástæðan fyrir því að Íslendingar lentu á gráa listanum, ekki á svarta listanum heldur á eins konar athugunarlista, er ekki sú að þessi tilteknu embætti væru undirmönnuð. Það er ekki meginástæðan. Það eru ýmiss konar verkferlar og hugbúnaður sem hefur dregist að innleiða en við erum með þau mál öll í ferli. Að sjálfsögðu erum við að tryggja þessum embættum fjármögnun í samræmi við óskir þeirra eftir að hafa farið yfir það hvernig fjármunirnir geta nýst. Ég vek athygli á því að hvað varðar t.d. peningaþvættismál munu þeir fjármunir sem fara til skattrannsóknarstjóra líka nýtast vegna slíkra mála og eru ekki eingöngu bundnir við héraðssaksóknaraembættið sem fær samkvæmt þeim tillögum sem við erum að vinna með og höfum rætt um í ríkisstjórninni til viðbótar 90 millj. kr. á ársgrundvelli, 50 millj. kr. á þessu ári sem hækka upp í 90 millj. kr. varanlega frá næstu áramótum. Já, það munar um þessa fjármuni og það er kannski ágætt að við féllumst ekki á tillögu hv. þingmanns sem óskaði eftir 36 milljörðum síðast þegar við áttum hér orðastað, undir lok síðasta þings, (Gripið fram í.) í allt annan málaflokk. (IngS: … öllu sem þeir …)