150. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2020.

loftslagsmál.

467. mál
[18:21]
Horfa

Flm. (Andrés Ingi Jónsson) (U):

Virðulegur forseti. Við þurfum ekki að hafa fylgst lengi með stjórnmálum til að hafa orðið vitni að gríðarlegum breytingum í því hvernig talað er um loftslagsmál í samfélaginu og ekki síst innan veggja Alþingis. Okkur nægir að líta eins og 15 ár aftur í tímann til að finna dæmi þess að þau sem töluðu fyrir metnaðarfullum aðgerðum í loftslagsmálum voru sögð mála skrattann á vegginn í þingsal og fyrir giska tíu árum var hér enn tekist á um það hvort Ísland ætti yfir höfuð að axla sömu ábyrgð á lausn á loftslagsvandanum og aðrar þjóðir eða ekki. Þá talaði fólk fyrir því að Ísland myndi sækjast eftir undanþágum í ætt við þær sem fengust í Kyoto-bókuninni þar sem Ísland samdi um að fá að margfalda losun sína á skuldbindingartíma samningsins. En nú er öldin önnur og Ísland hefur undirgengist sömu skuldbindingar og önnur þau ríki.

Lög um loftslagsmál voru sett árið 2012 og marka mikil tímamót í þeirri vegferð ríkisstjórnar Íslands að gera landið að ábyrgum aðila á alþjóðavísu í loftslagsmálum. Í framhaldinu hafa lögin verið uppfærð nokkrum sinnum, nú síðast í fyrra þar sem bætt var inn skýrara hlutverki fyrir loftslagsráð í samræmi við ályktun sem samþykkt var á þingi 2016, auk þess sem lögfest voru ákvæði um reglubundna aðgerðaáætlun sem ríkisstjórn skyldi gera í loftslagsmálum. Nú eru þessi mál komin í nokkuð fast horf og þótt fyrr hefði verið. En eins og ég vék að í upphafi var staðan ekki glæsileg fyrir 10–15 árum þannig að við megum kannski vel við una.

Það frumvarp sem hér liggur fyrir snýst um að skerpa enn á hlutverki loftslagsráðs. Ráðið gegnir samkvæmt 5. gr. laganna því meginhlutverki að veita stjórnvöldum aðhald og ráðgjöf um stefnumarkandi ákvarðanir og markmið Íslands sem tengjast loftslagsmálum. Það sem ég legg til að bætist við lögin er það skýra hlutverk að leggja hreinlega fram álitsgerð um það hvort aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum uppfylli þau markmið sem stjórnvöld hafa lýst yfir að þau setji sér sem og alþjóðlegar skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum. Það sem næst kemst þessu markmiði í gildandi lögum er það verkefni ráðsins að rýna á undirbúningsstigi áætlanir stjórnvalda sem snerta loftslagsmál, sem er mun veikara en það hlutverk sem ég legg hér til en ég tel fulla ástæðu til þess að kveða nokkuð fast að orði með þetta verkefni.

Fyrirmyndina sæki ég til laga um opinber fjármál, merkilegt nokk, þar sem fjármálaráði er falið sambærilegt hlutverk gagnvart fjármálaáætlun sem lögð er fram á hverju vori. Fjármálaráð er sjálfstætt í störfum sínum samkvæmt lögum um opinber fjármál og skal meta hvort fjármálastefna og fjármálaáætlun fylgi annars vegar þeim grunngildum sem byggð eru inn í lög um opinber fjármál sem og þeim tölulegu markmiðum sem sett eru utan um fjármál hins opinbera. Þetta er mikilvægt aðhaldshlutverk á því grundvallarmálasviði sem rekstur hins opinbera er og þótti nauðsyn að setja inn í lög um opinber fjármál þegar þau voru lögfest árið 2015 til að hægt væri að tryggja almenna og hlutlæga umræðu um stefnu stjórnvalda. Fjármálaráð var væntanlega ekki sett til höfuðs neinum ráðherra í ríkisstjórninni, enda var það fjármálaráðherra sjálfur sem lagði til að það hefði þetta aðhaldshlutverk gagnvart sjálfu sér á þeim tíma, heldur einfaldlega til að bæta umræðuna og byggja upp traust á þeim ferlum sem eru í kringum lagasetninguna. Ég tel sjálfsagt að sambærileg sjálfstæð og hlutlæg rýni fari fram á fyrirhuguðum aðgerðum stjórnvalda í loftslagsmálum enda séu þau mikilvægt grundvallaratriði í stefnumörkun hins opinbera, ekki síður en þær áætlanir sem snerta fjármál hins opinbera.

Fyrsta aðgerðaáætlun í loftslagsmálum sem sitjandi ríkisstjórnin lagði fram nær yfir árin 2018–2030 og hefur ítrekað verið kynnt sem fullfjármögnuð áætlun. Þetta er góður frasi sem væri samt enn betra að geta borið upp við hlutlaust mat loftslagsráðs á því hvað það þýði að vera fullfjármagnað, hver árangurinn sé af þeim aðgerðum sem kveðið er á um og hvar megi gera betur. Hins vegar er það svo að í inngangskafla þeirrar áætlunar sem lögð var fram fyrir einu og hálfu ári kemur fram að erfitt geti verið að meta líkleg áhrif einstakra aðgerða og sömuleiðis kostnað. Þetta eru vonandi byrjunarörðugleikar í því ferli sem ítrekuð framlagning aðgerðaáætlana í loftslagsmálum er, þannig að við næstu aðgerðaáætlun takist betur til. Það er jú vikið að því í 5. kafla áætlunarinnar um áfangaskiptingu hennar að það hafi talist skynsamlegt að leggja fram áætlun sem næði yfir afmarkað en raunhæft svið þannig að hægt væri að leggja eitthvað fram strax að hausti 2018 en síðan mætti fara yfir áætlunina þegar skuldbindingar Íslands til 2030 lægju ljósar fyrir, sem gerðist um mitt síðasta ár, og við það tilefni væri hægt að leggja fram frekari útfærslu og áætlun sem væri markvissari, myndi njóta betri greiningar á árangri og hvernig aðgerðir myndu stuðla að því að Ísland stæði við tölulegar skuldbinding sínar og markmið. Aftur er þetta eitthvað sem væri æskilegt að fá skýrslu frá loftslagsráði um.

Tökum t.d. fjármögnun á gildandi aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum þar sem gróf skipting fjármuna er sú að um 4 milljörðum verði varið til kolefnisbindingar, sem heyrir ekki nema að örlitlu leyti undir þær skuldbindingar sem Parísarsáttmálinn nær utan um, 1,5 milljörðum til orkuskipta í samgöngum, hálfum milljarði til loftslagssjóðs og 800 milljónum í margvíslegar aðgerðir. Þarna eru tvær meginstoðir. Það eru orkuskipti í samgöngum og þeir fjármunir nýtast aðallega til að ívilna hreinorkubílum. Of skammt hefur verið gengið í að jafna lóð vogarskálarinnar þannig að þeir bílar sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti verði ekki jafn fýsilegur kostur og hreinorkubílarnir, en af þeim rúmu 6 milljörðum sem gert er ráð fyrir í þessari áætlun til fimm ára fara, eins og ég sagði, 4 milljarðar eða tveir þriðju hlutar í kolefnisbindingu sem er ekki hluti af þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem áætlun af þessu tagi á að ná til. Kolefnisbindingin er góðra gjalda verð og skilar árangri og ekki bara hvað varðar loftslagsmál heldur líffræðilegan fjölbreytileika og ýmsar aðrar jákvæðar hliðarverkanir. En hér er strax hægt að velta því fyrir sér, og væri gott að hafa það hreinlega skjalfest frá loftslagsráði, hvort tveimur þriðju hlutum þess púðurs sem varið er í aðgerðaáætlunina sé varið utan alþjóðlegra skuldbindinga.

Auk þess að fela loftslagsráði þetta nýja hlutverk er í frumvarpinu lagt til að í stað þess að aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum skuli endurskoðuð fjórða hvert ár verði hún endurskoðuð á tveggja ára fresti. Þetta er í samræmi við það sem virðist ætla að verða reyndin hjá núverandi ríkisstjórn en er líka eitthvað sem endurspeglar þá brýnu þörf sem er á stigvaxandi metnaði í loftslagsmálum og verður þess líka valdandi að sitji hér ríkisstjórnir heil fjögurra ára kjörtímabil verði þær að leggja fram tvær aðgerðaáætlanir hið minnsta, eina stuttu eftir að þær taka við og svo aðra á miðju kjörtímabili þar sem þær þurfa að sýna meiri metnað en í þeirri fyrri. Þannig náum við vonandi að trappa metnaðinn upp á það stig sem við getum sætt okkur við.

Varðandi þörfina á þessari lagasetningu langar mig að vitna í inngangsorð aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum þar sem segir, með leyfi forseta:

„Vonir standa til að nýstofnað loftslagsráð geti veitt stjórnvöldum aðhald til að skerpa á þessari aðgerðaáætlun og efla samræðu og samvinnu um loftslagsmál almennt.“

Verði þetta frumvarp mitt að lögum náum við því markmiði ekki með von heldur með skýrum fyrirmælum í lögum sem ég tel talsvert traustari grunn til að byggja á þegar við erum að tala um áætlunargerð af því mikilvægi sem hér um ræðir.