150. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2020.

staða hjúkrunarheimila og Landspítala.

[16:19]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir umræðuna. Það eru nokkur mál sem standa út af. Ég vil byrja á því að segja að á tímabilinu 2009–2018 bættust í raun og veru við 144 hjúkrunarrými á tíu árum. Áætlunin sem núna er fjármögnuð í fjármálaáætlun gerir ráð fyrir 550–560 nýjum rýmum sem eru fjármögnuð á tíma fjármálaáætlunarinnar. Þannig að hér er um að ræða stórátak í þessum efnum. Ég tek undir það sem hv. þingmenn segja, það þarf að beita fleiri úrræðum. Þess vegna höfum við fjölgað dagdvalarrýmum markvisst. Þess vegna höfum við styrkt mönnun í heimahjúkrun. Þess vegna höfum við fjármagnað heilsueflandi móttöku í heilsugæslunni. Þess vegna höfum við lagt áherslu á stefnu í málefnum fólks með heilabilun og styrkt ýmis verkefni á því sviði. Þess vegna stendur yfir mótun stefnu í endurhæfingarmálum og þess vegna höfum við bætt við endurhæfingarrýmum á Sauðárkróki o.s.frv. Þetta eru nefnilega ekki mál sem verða leyst með einni aðferð. Þó er það þannig að það verður að taka til hendinni hvað varðar hjúkrunarrýmin og það erum við að gera.

Varðandi stöðuna á Landspítala var það þannig fyrir rúmu ári að þar lágu 53 aldraðir inni á bráðadeildum, 53 einstaklingar sem voru með mat til þess að fá að leggjast inn á hjúkrunarrými en komust ekki þangað. Einu ári síðar eru þetta 40 manns þannig að það er í skrefum — sem eru allt of smá — verið að létta þunganum af Landspítalanum. Þegar við fáum núna 99 ný rými á Sléttuvegi og leggjum upp í heilsueflandi móttöku í heilsugæslunni og fleiri úrræði, (Forseti hringir.) fleiri sveigjanleg dagdvalarúrræði o.s.frv., þá stígum við einu skrefi nær lausninni. En ég vil brýna hv. þingmenn til að byggja sinn málflutning á staðreyndum í stað þess að halda því fram hér í ræðustóli Alþingis ekki sé verið að gera neitt til að leysa vandann því að það er rangt.