150. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2020.

Kristnisjóður o.fl.

50. mál
[17:33]
Horfa

Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Kristnisjóð en þar er lagt til að 5. gr. laganna falli brott. Í 5. gr. segir, með leyfi forseta:

„Sveitarfélögum kaupstaða og kauptúna er skylt að leggja til ókeypis lóðir undir kirkjur og undanskilja þær gatnagerðargjaldi. Nú er presti skylt að hafa aðsetur í kaupstað eða kauptúni og er þá sveitarfélagi skylt að leggja til ókeypis lóð undir íbúðarhús hans ef um lögboðið prestssetur er að ræða.“

Það gefur augaleið að þetta ákvæði var sett á á þeim tíma með tilliti til þess að í þessu landi væri svokölluð þjóðkirkja, eitthvað sem ég kalla reyndar stundum ríkiskirkjuna, það fer eftir því hvort maður kallar hana sérnafni sínu eða það sem hún er í eðli sínu sem er ríkiskirkja en ekki þjóðkirkja. Þessi löggjöf hefur verið túlkuð þannig af alla vega sumum sveitarfélögum, t.d. Reykjavíkurborg, að þeim beri í raun og veru skylda til að veita ókeypis lóðir öllum þeim trú- og lífsskoðunarfélögum sem eru viðurkennd af ríkinu yfir höfuð. Þótt að þær ákvarðanir hafa ekki verið byggðar beinlínis á 65. gr. stjórnarskrárinnar um jafnræði fyrir lögum óháð trúarskoðunum m.a. er það hins vegar sá andi sem a.m.k. Reykjavíkurborg hefur viljað fara eftir.

Nú gerðist það fyrir nokkrum árum að trúfélag múslima fékk slíka lóð og hugðist, og að mér vitandi hyggst, byggja mosku. Út frá því spratt mikil umræða, mjög óheppileg fyrir pólitíkina á Íslandi, sama umræða og hefur því miður oft komið upp síðkastið í Evrópu. Hún snýst um það að það eru einstaklingar í þessu samfélagi og jafnvel stjórnmálamenn sem vilja beinlínis mismuna fólki á grundvelli trúarskoðana. Íslenskur stjórnmálamaður sem situr á þingi í dag hefur stungið upp á því í fúlustu alvöru og opinberlega að þessi hópur, múslimar, verði rannsakaður sérstaklega fyrir það eitt að vera múslimar. Það, virðulegi forseti, tel ég mjög óheppilega orðræðu svo ekki sé meira sagt, hún er reyndar óboðleg í frjálsu og lýðræðislegu samfélagi.

Þrátt fyrir 65. gr. stjórnarskrárinnar um jafnræði fyrir lögum erum við líka enn þá, því miður, með 62. gr. stjórnarskrárinnar sem fjallar um ríkiskirkjuna, þar er hún kölluð þjóðkirkja. Í því felst ákveðin mótsögn sem af og til kemur til kasta dómstóla, hvort eigi að hafa forgang yfir hitt. Eiga lögin að gilda jafnt fyrir alla óháð trúarskoðunum eða er heimilt að mismuna borgurum landsins á grundvelli trúarsannfæringar eða reyndar lagatæknilega út frá skráningu í trúfélag? Dómstólar hafa í öllum meginatriðum, leyfi ég mér að segja, tekið þá afstöðu að heimilt sé að mismuna á grundvelli trúarbragða þegar kemur að þjóðkirkjunni vegna þessa stjórnarskrárákvæðis, 62. gr., sem er ein af ástæðunum fyrir því að mikilvægt er að fjarlægja þá grein alveg óháð trúarskoðunum hvers og eins okkar. Það er óheppilegt að í lögum sé ákvæði sem ógnar að mínu mati hreinlega allsherjarreglu með tali um það hvaða trúarhópi við ætlum að mismuna, hvaða trúarhópur eigi að hafa sérstök forréttindi umfram annan, ýmist í krafti mikilvægis þeirrar trúar eða hreinlega fjölda sem er algengari rökstuðningur á Ísland, það séu einfaldlega svo margir í þjóðkirkjunni að það réttlæti þá mismunun eða þau forréttindi sem hún nýtur og þar af leiðandi þeir sem aðhyllast trúarkenningar hennar, algerlega að þeim ólöstuðum að sjálfsögðu.

Síðan kemur upp umræðan um það hvernig við eigum að vera að mismuna öðrum hópum. Síðustu árin hefur það beinst gegn múslimum. Í gamla daga beindist það mikið gegn gyðingum og það hefur beinst gegn öðrum hópum einnig. En það er bara ein boðleg leið, virðulegi forseti, og hún er sú að allir borgarar landsins og heimsins séu jafnir fyrir lögum án tillits til trúarsannfæringar, trúarskoðana og skráningar í trúfélag. Það er eina boðlega leiðin. Það er það eina sem kemur til greina í huga þess sem hér stendur.

Hægt er að bregðast við á tvennan hátt þegar kemur að 5. gr. laga um Kristnisjóð sem skyldar sveitarfélög til að leggja til ókeypis lóðir undir kirkjur þjóðkirkjunnar miðað við uppruna laganna. Annað er að breyta lögunum þannig að það sé skýrt í ákvæðinu að sveitarfélögum beri að veita öllum trú- og lífsskoðunarfélögum ókeypis lóðir, hvort sem það eru múslimar eða gyðingar og reyndar guðleysingjar ef út í það er farið. Það er ein leið. Þannig væri 65. gr. stjórnarskrárinnar uppfyllt bæði í anda og í reynd. Ég nefni hana ekki bara út af lagatækni heldur líka vegna þess að ef við trúum á jafnræði fyrir lögum þá hljótum við að vilja stunda það líka jafnvel þótt við finnum einhverjar lagatæknilegar leiðir til þess að komast að þeirri niðurstöðu.

Hin leiðin er að fjarlægja þessa skyldu.

Ef við vegum og metum þá tvo kosti verðum við að spyrja: Hvers vegna í ósköpunum eiga sveitarfélög að gefa trú- og lífsskoðunarfélögum lóðir? Ég þekki engin góð rök fyrir því. Eflaust voru einhvern tíma góð rök fyrir því, þegar trúarsannfæringarflóran á Íslandi var minni og kirkjan þjónaði öðru hlutverki í samfélaginu en hún gerir núna. En í dag veit ég ekki hvers vegna trú- og lífsskoðunarfélög ættu að fá ókeypis lóð frekar en einhverjar aðrar tegundir af félagasamtökum, segjum stjórnmálasamtök. Af hverju er sveitarfélögum ekki skylt að gefa lóðir undir húsnæði stjórnmálaflokka eða þeirra sem berjast fyrir breyttu mataræði, þeirra sem berjast gegn loftslagsbreytingum eða hvað eina? Allar þessar spurningar leiða mig að þeirri niðurstöðu að það sé skynsamlegast, einfaldast og málefnalegast að hreinlega afnema þessa skyldu og gera þá sömu kröfu til trú- og lífsskoðunarfélaga og við gerum til flestra annarra félaga að vanti þau lóðir þurfi félögin bara að finna út úr því sjálf. Það þykir mér alveg sanngjarnt. Mér finnst það málefnalegt. Ef ég ætla að kaupa mér húsnæði þarf ég að finna út úr því sjálfur, ég fæ það ekki gefins. Það eru reyndar málefnalegri ástæður fyrir því að gefa einstaklingum húsnæði ef út í það er farið, ef þörf er á því. Það er alla vega spurning um lífsafkomu að hluta sem er vissulega ekki tilfellið hér. Kannski var það þannig einhvern tíma, ég skal ekki segja, en nú er árið 2020 og 5. gr. er í skásta falli til vansa og óþörf.

Ég ætla ekki að hafa þetta efnislega lengra. Forseti verður eiginlega að hjálpa mér því að ég veit ekki nákvæmlega í hvaða nefnd þetta mál á heima.

(Forseti (BN): Það er allsherjar- og menntamálanefnd.)

Ljómandi. Það er besta nefndin að mínu mati.. Þá legg ég til að þessu sögðu að frumvarpið gangi til 2. umr. og allsherjar- og menntamálanefndar.

Flutningsmenn frumvarpsins eru sá sem hér stendur, Helgi Hrafn Gunnarsson, og hv. þingmenn Björn Leví Gunnarsson, Hanna Katrín Friðriksson, Halldóra Mogensen, Jón Steindór Valdimarsson, Jón Þór Ólafsson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Smári McCarthy, Þorsteinn Víglundsson, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Andrés Ingi Jónsson og Inga Sæland.

Sumir gætu hafa tekið eftir því að flutningsmannalistinn samanstendur að miklu leyti af þingmönnum Pírata og Viðreisnar. Þá er rétt að geta þess að Viðreisn hafði í huga og var byrjuð að undirbúa frumvarp sama efnis aðeins á undan okkur en við lítum svo á að þessir tveir flokkar séu að leggja frumvarpið fram saman.