150. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2020.

Kristnisjóður o.fl.

50. mál
[17:54]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Forseti. Ég hef svo sem engu við þetta að bæta frá því í ræðu minni áðan. Ég rakti þetta. Þetta er byggt á ákveðnum sögulegum forsendum þegar þetta ákvæði er sett 1970 og lögin um Kristnisjóð samþykkt. Eins og ég sagði áðan stóðu mörg sveitarfélög, Garðabær, Akranes, Borgarnes og fleiri sem dæmi á kirkjujörðum og á þeim tíma voru þær jarðir í umsjón ríkisins. Ríkið átti ekki þessar jarðir þá. Það eignast þær með kirkjujarðasamkomulaginu 1997. Það þótti eðlilegt í þeirri umræðu sem þá var í kringum þetta allt saman og í raun og veru borðleggjandi að kirkjan fengi þá lóðir sem yrðu endurgjaldslausar og án gatnagerðargjalda. Þetta er sögulega mikilvægt. Hv. þingmaður og flutningsmaður þessa frumvarps kom einmitt inn á það í ræðu sinni að hann hefði ekki fundið rökin fyrir þessari lagasetningu á sínum tíma. Þetta eru rökin og ég hef í raun engu við það að bæta.