150. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2020.

stefna stjórnvalda í matvælaframleiðslu.

[12:44]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil bara þakka fyrir þessa góðu umræðu og þakka hæstv. ráðherra fyrir hans svör. Mér finnst standa upp úr í umræðunni að það þurfi að styrkja möguleika frumkvöðla í nýsköpun í matvælaframleiðslu, efla menntun og fjölga störfum þar, fá ungt og vel menntað fólk inn í þennan geira. Við í atvinnuveganefnd höfum fengið kynningu á verkefninu Matarauður Íslands og það liggur fyrir að það verkefni eigi að standa til ársins 2021. Mér finnst mjög mikilvægt að það verkefni haldi áfram í einhverri mynd. Mikið þróunarstarf hefur verið, eins og í Sjávarklasanum og einnig hjá bændum í kjötframleiðslu og ylrækt, og það eru áform uppi í ylrækt um stóraukna framleiðslu sem er mjög gott. Við þurfum virkilega að nýta okkar jarðhita til að framleiða meira af grænmeti og því sem mögulegt er að rækta á norðurslóðum. Það að neyta fæðu í sínu nærumhverfi og framleiða sem mest hér heima er gífurlega stór þáttur í loftslagsmálum og við gleymum því oft í þessari umræðu þegar verið er að gagnrýna það að leggja fé í búvörusamninga og annað slíkt. Fiskeldið er komið hingað til að vera og þar erum við líka að auka matvælaframleiðslu, bæði fyrir okkur sjálf og til að fæða heiminn. Það skiptir líka miklu máli og við höfum ótal tækifæri. Leiðarljósið þarf að vera stefna stjórnvalda um sjálfbæra matvælastefnu sem er væntanlega á leiðinni fljótlega og við þurfum að ná fram samlegðaráhrifum allra þeirra sem eru að vinna að nýsköpun í matvælaframleiðslu og skapa verðmæti og fjölbreytt atvinnutækifæri vítt og breitt um landið.