150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

útgreiðsla persónuafsláttar.

[14:27]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Ég þakka þessa umræðu. Það er gott að fá tækifæri til að fjalla aðeins um tekjuskattskerfið. Við Miðflokksmenn höfum að meginstefnu að sem mest af sjálfsaflafé einstaklinga sé í þeirra höndum. Já, að lækka skatta, að skattlagning sé einföld og hagkvæm. Að þessu leyti var fjölgun skattþrepa nýlega ekki til bóta, herra forseti.

Þróun tekjuskattskerfisins undanfarna áratugi hefur einkennst af þyngingu skattbyrði á öllum tekjuhópum en þó mest á því fólki sem lægstar hefur tekjurnar. Þetta kemur glöggt fram í vandaðri skýrslu ASÍ frá því í ágúst 2017. Í nýlegri tímaritsgrein eftir dr. Axel Hall háskólakennara kemur fram, þegar litið er yfir allt tímabil staðgreiðslunnar, að tengsl persónuafsláttar við vísitölu neysluverðs á tímum hækkunar kaupmáttar hefur aukið meira skattbyrði hjá hinum tekjulægri en þeim sem hafa hærri tekjur. Þessi þróun er nefnd í þessari ritsmíð raunskattskrið og ég nefni þetta sérstaklega af því að ég veit að hv. forgöngumaður þessarar umræðu er áhugamaður um íslenskt tungutak þegar kemur að skattamálum.

Herra forseti. Ríkissjóður og þá ekki síður sveitarsjóðir eru afar frekir til fjárins þegar kemur að skattlagningu á lægstu tekjur og hleypur hún á tugum milljarða. Hér erum við að tala um tekjur undir 300.000 kr., þ.e. tekjur sem ekki duga fyrir nauðþurftum samkvæmt opinberum viðmiðunum sem eru aðgengileg á vef Stjórnarráðsins.

Herra forseti. Þegar kemur að tekjuskattskerfinu er sannarlega verk að vinna.