150. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2020.

störf þingsins.

[15:03]
Horfa

Njörður Sigurðsson (Sf):

Herra forseti. Mig langar að leggja út af orðum hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sem hann lét falla í þessum sal í síðustu viku þar sem hann notaði frasann að ekki væri hægt að gera allt fyrir alla. Þetta er kunnuglegur frasi sem heyrist reglulega úr herbúðum Sjálfstæðismanna og er jafnan notaður til að afvegaleiða, jafnvel smætta, þá umræðu sem er hverju sinni um að bæta þurfi kjör þeirra sem standa veikast hér á landi. Fáir ef nokkrir hafa talað um að gera allt fyrir alla en ýmsir þó bent á að mikilvægt sé að bæta kjör þeirra sem lökust hafa kjörin. Ef við skoðum alla, sem hljóta þá að vera allir Íslendingar, þá er ljóst að það þarf t.d. ekki að bæta kjör þeirra ríku eða lækka veiðigjöld á þá aðila sem nýta auðlindir þjóðarinnar. Samt er það gert í tíð þessarar ríkisstjórnar og það er gert á sama tíma og lífeyrir öryrkja og eldri borgara heldur ekki í við launaþróun, svo að dæmi sé tekið. Þegar hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra er bent á þetta þýðir það í hans bókum að gera allt fyrir alla. En kannski eru allir og allt teygjanleg hugtök í hans bókum.