150. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2020.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[16:43]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Virðulegur forseti. Ég fagna þeirri tillögu sem við greiðum atkvæði um í dag og fagna frumkvæði Sambands íslenskra sveitarfélaga og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins í þessu máli. Ég hvet hins vegar í framhaldinu hæstv. ráðherra til að meta gaumgæfilega þær athugasemdir sem fram hafa komið við umræðuna, einkum þær sem snúa að tveimur skrefum í sameiningarferli og sveigjanleika með tilliti til landfræðilegra aðstæðna. Þá hvet ég ráðherra jafnframt til að meta hvort ekki sé skynsamlegt að skoða aðeins betur skuldahlutfallið eins og það kemur fyrir í tillögugreininni, þ.e. að halda sig áfram við það að meta heildarskuldir sveitarfélaganna sem hlutfall fremur en að búta það niður í tvennt eins og gert er ráð fyrir í tillögunni. Ég ítreka að ég fagna sérstaklega þessari tillögu og því frumkvæði sem kemur frá þessum tveimur aðilum.