150. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2020.

betrun fanga.

24. mál
[17:05]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Það er auðvelt að samþykkja svona tillögu enda var í desember sl. tilbúin aðgerðaáætlun til að efla heilbrigðisþjónustuúrræði vegna vímuefna innan fangelsa. Ég mun vinna áfram samkvæmt henni og þetta er bara aukinn kraftur til þess, en ég get ekki verið sammála hv. þingmanni um að þetta sé breyting á nálgun stjórnvalda. Í þessum tillögum er m.a. verið að setja geðteymi inn í fangelsin. Það er verið að auka alla þá heilbrigðisþjónustu sem fangar fá sem og verið að skoða í ráðuneytinu hjá mér menntun fanga sem og menntun fangavarða sem þarf til að við tryggjum betrun. Það er ábyrgð stjórnvalda að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að tryggja að raunveruleg betrun eigi sér stað í fangelsum landsins og ég er þakklát fyrir og ánægð að sjá einhug og stuðning við það verkefni hjá mér í þessum þingsal.