150. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2020.

varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds í Stjórnarráði Íslands.

523. mál
[17:30]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég held raunar að öll þau skref sem hafa verið stigin í átt til aukins gagnsæis, séu mikilvæg. Það á ekki bara við um það sem hefur gerst að undanförnu. Ég vil rifja upp lög um fjármál stjórnmálaflokka sem ég tel að hafi verið mikið framfaraskref á sínum tíma, raunar fyrir tíma samfélagsmiðla. Þau skipta gríðarlegu máli og ég verð vör við það á alþjóðavettvangi að fólki finnst það vera til fyrirmyndar, svo að ég nefni það sem dæmi. Gagnsæi er einmitt svo mikilvægt eins og hv. þingmaður vísar í. En hvernig samrýmist þetta ábendingum GRECO? Það var bara hluti af vinnu starfshópsins að fara yfir síðustu úttekt og þær ábendingar sem þar komu fram. Þar er til að mynda fjallað um maka ráðherra og ólögráða börn þannig að þarna erum við að leggja til ákveðið skref í þeim málum sem við teljum að mæti þessum ábendingum sömuleiðis.

Skráning hagsmunavarða er algjört nýmæli á Íslandi ef við förum í það. Ég veit að mörgum kann að finnast þetta ankannalegt í okkar litla samfélagi, eins og ég segi, þar sem maður hittir fólk í sundi og matvöruversluninni og hvaðeina. En það er svo mikilvægt að við horfum til þess að við erum samt fullburða samfélag og þurfum að hafa regluverk sem hæfir slíku samfélagi.