150. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2020.

kosningar til Alþingis.

81. mál
[18:41]
Horfa

Flm. (Jón Þór Ólafsson) (P):

Forseti. Eins og ég nefndi áðan er hv. þm. Björn Leví Gunnarsson fyrsti flutningsmaður málsins ásamt þingflokki Pírata, en hann er veikur heima þannig að ég flyt þessi mál hans svo að þau komist til nefndar og þá er hægt að afgreiða þau áður en þingið fer í sumarfrí.

Þetta mál varðar kosningarrétt og er mjög einfalt mál. Í dag þarf alltaf að endurnýja kosningarréttinn ef maður býr erlendis. Þetta mál þýðir að það þarf aðeins að gera það einu sinni. Það minnkar skrifræði, minnkar kostnað fyrir ríkissjóð og styrkir og eflir kosningarrétt landsmanna sem búa erlendis um einhvern tíma.

Í greinargerðinni segir: Með frumvarpinu er lagt til að íslenskir ríkisborgarar sem búsettir eru erlendis verði teknir á kjörskrá ef þeir leggja fram fullnægjandi umsókn um kosningarrétt. Með því fyrirkomulagi verður horfið frá þeirri framkvæmd sem nú gildir að íslenskur ríkisborgari sem hefur átt lögheimili hér á landi þurfi að sækja sérstaklega um að halda kosningarrétti sínum þegar liðin eru átta ár eða meira frá því að viðkomandi ríkisborgari flutti af landi brott, en ákvörðun um að einhver skuli þannig tekinn á kjörskrá gildir í fjögur ár. Með því er lagt til að í stað þess þurfi íslenskur ríkisborgari sem hefur flutt til útlanda aðeins að sækja um að viðhalda kosningarrétti sínum einu sinni.

Þá er lagt til að umsóknarferli vegna umsókna um töku á kjörskrá verði rafrænt en það einfaldar og styttir ferlið og gerir það öruggara.

Flutningsmenn telja að verði frumvarpið samþykkt muni það spara kjósendum og Þjóðskrá Íslands þó nokkra pappírsvinnu og einfalda umstang í kringum kjörskrá.

Ég legg til að málinu verði vísað til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.