150. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2020.

lögþvinguð sameining sveitarfélaga.

[10:38]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég er ein af þeim sem hæstv. ráðherra var eiginlega að setja ofan í við hér í gær þegar hann gerði grein fyrir atkvæði sínu; ein af þeim sem kyjuðu sönginn um sjálfræði sveitarfélaganna og kyrjuðu sönginn um að það væri algerlega ólíðandi að ætla að lögþvinga sveitarfélag sem ekki kærði sig um sameiningu í slíka sameiningu. Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra hvort honum þyki sjálfsagt að lögþvinga sveitarfélag í sameiningu, hvort sem íbúum þar líkar það betur eða verr. Ráðherra orðaði það svo í framsögu sinni hér í gær, þegar hann gerði grein fyrir atkvæði sínu: Ef þau væru ekki sjálfbær, ef þau gætu ekki rekið sig sjálf. En nú þekkjum við lítil sveitarfélög sem eru sjálfbær og geta rekið sig sjálf og kæra sig ekki um sameiningu á sama tíma og við þurfum að horfast í augu við það að í raun eigi að lögþvinga þau í slíka aðgerð.

Ég ætla ekki að fara að rökræða við hæstv. ráðherra um það hvað 1. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar felur í sér um sjálfstæði sveitarfélaga heldur er ég að tala um lögþvingun. Ég er að tala um aðför að þeirra lýðræði, þeirra frelsi til að lifa sjálfstæðu lífi þegar þau eru sjálfbær til þess. Finnst hæstv. ráðherra það sem sagt alveg sjálfsagt að stíga inn og framkvæma slíkar aðgerðir þrátt fyrir það sem á undan er sagt? Og þá er ég ekki að tala um þau sem virkilega vilja sameiningu og kalla hreinlega eftir henni og allan hópinn sem er sammála ráðherra, ég er að tala um hópinn sem er það ekki.