150. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2020.

lögþvinguð sameining sveitarfélaga.

[10:40]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ingu Sæland fyrir að taka þetta upp og við getum kannski aðeins dýpkað umræðu sem erfitt var að fara í í atkvæðaskýringum og mínúturæðum í gær. Mér fannst í afstöðu sumra þingmanna og sérstaklega í útskýringum þeirra að þeir hefðu misskilið málið að nokkru leyti. Málið er auðvitað þannig til komið að menn hafa í mjög langan tíma, og ég býst við að hv. þingmaður deili þeirri skoðun með flestum Íslendingum, talið mjög mikilvægt að stjórnsýslustigið, sveitarstjórnarstigið, sé öflugt og sjálfbært og geti tekist á við þau verkefni sem við hér, löggjafinn, felum þeim og það sé algerlega óumdeilt að löggjafinn geti gert það, bæði tekið verkefni af sveitarfélögum en einnig fært þeim önnur verkefni.

Þetta mál er þannig vaxið að það er unnið í samráði við sveitarfélögin, mjög nánu, í mjög langan tíma. Ég lýsti því hér í gær að það væri byggt á skýrslu sem kom fram fyrir tveimur árum sem hafði verið unnin á árunum þar á undan í samskiptum við öll sveitarfélögin og síðan skipuð sérstök samráðsnefnd með fulltrúum sveitarfélaga landsins og þau fjölluðu sérstaklega um málið á sínu aukalandsþingi þar sem mjög stór og afgerandi meiri hluti studdi það að þetta væri aðgerð sem snerti allt sveitarstjórnarstigið. Það breytir því ekki að auðvitað eru alltaf á einhverjum tíma aðilar sem mál varða, eins og í þessu tilfelli einstök sveitarfélög, sem eru kannski ekki nákvæmlega sammála þeim 90% sem telja að þetta sé nauðsynlegt til þess að efla og styrkja sveitarstjórnarstigið. Ég minni á að þarna eru ellefu aðgerðir. Það hafa áður verið ákvæði um lágmarksíbúafjölda þannig að það er ekki nýtt. Löggjafinn hefur áður tekið slíkar ákvarðanir og löggjafinn hefur áður haft talsverð áhrif á umfang og stærð og verkefni sveitarfélaga þannig að ég tel að þetta sé ekki lögþvingað. (Forseti hringir.) Menn hafa talsverðan tíma til að koma til móts við þetta og í frumvarpssmíðinni verður líka tekið tillit til þeirra athugasemda sem koma fram hjá þinginu og birtust í gær.