150. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2020.

örorka kvenna og álag við umönnun.

[11:09]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðmundi Andra Thorssyni fyrir að óska eftir þessari sérstöku umræðu. Raunar er það þannig að það þarf að setja umönnun meira á dagskrá í íslensku samfélagi almennt og ég vil þakka fyrir það vegna þess að við þurfum bæði, eins og kemur fram í máli hv. þingmanns, að byggja á þeirri þekkingu sem við höfum en líka að afla frekari upplýsinga til að við getum dregið réttar ályktanir. Umræðan gerir gott í sjálfu sér vegna þess að þar með er það partur af því að við erum meðvitaðri og þar af leiðandi meiri líkur á því að breyta viðhorfi almennings og ekki síður atvinnurekanda þegar kemur að því að ræða umönnun og hvernig umönnun dreifist á milli kynja.

Hv. þingmaður vísar til þess að í nýrri skýrslu Eurostat komi fram að Ísland skeri sig frá öðrum löndum en í því samhengi nefnir hann að fjölgun örorkulífeyrisþega hefur að undanförnu verið að langmestu leyti í hópi kvenna á aldrinum 50–66 ára. Hv. þingmaður veltir því upp hvort hér sé um að ræða fórnarkostnað af því að velta skyldum yfir á fjölskyldur og inn á heimilin í landinu. Mér finnst það sérstakt umhugsunarefni að umönnunin lendi mest á herðum kvenna en samkvæmt rannsókn Eurostat er tíðni, og við erum að tala um tíðni hér, umönnunar hærri meðal kvenna en karla hérlendis. En það er mikilvægt að halda því til haga, og Kolbeinn H. Stefánsson félagsfræðingur hefur einmitt bent á það, að tölurnar sem við ræðum hér og koma frá Eurostat sýna ekki umfang veittrar umönnunar heldur hlutföll þeirra sem veita umönnun reglulega. Og það liggur fyrir að tölur um umfang umönnunar sem er safnað í evrópsku heilsufarsrannsókninni, sem síðast var safnað af Hagstofunni haustið 2019, verða tilbúnar til birtingar í haust og þá erum við komin með enn þá betri gögn. Vegna þess að hv. þingmaður hefur áhuga á þessu vildi ég benda á þennan þátt í umræðunni. Það er ekki þar með sagt að allir séu í öllum tilvikum undir verulegu álagi vegna umönnunar heldur er þetta auðvitað samspil við aðra þætti í vinnu og einkalífi.

Hvað varðar þátt hins opinbera er mikilvægt að hafa í huga líka að umönnun er eðlilegur þáttur af lífinu, eitthvað sem flest fólk vill taka þátt í og veita öldruðum og fötluðum og langveikum skyldmennum sínum. Hins vegar er það hlutverk samfélagsins, stjórnvalda og hins opinbera að styðja fólk við það að veita þessa umönnun og tryggja að það álag verði ekki of mikið. Það er t.d. hægt að gera með auknum sveigjanleika í vinnu, stuðningi eftir þörfum og þar fram eftir götunum. Við þurfum líka að halda því til haga að það er ekki ein lausn sem hentar öllum í þeim efnum. Það eru önnur úrræði sem þarf fyrir fólk sem á fötluð eða langveik börn en það fólk sem er með uppkomin skyldmenni með fötlun eða langvarandi sjúkdóma eða fólk með ellihruma foreldra. Mismunandi fatlanir kalla á mismunandi stuðning o.s.frv.

Ég vildi í þessari umræðu nefna nokkur verkefni sem eru á mínu borði á kjörtímabilinu og eru til þess fallin að draga úr álagi á fjölskyldur. Fyrst vil ég nefna að árið 2018 veitti ég Landspítala sérstakt framlag til að koma á fót stuðningsteymi fyrir langveik börn með miklar stuðningsþarfir vegna sjaldgæfra sjúkdóma. Foreldrarnir hafa kallað eftir því árum saman að það sé félagslegur stuðningur og öflugt stuðningsteymi fyrir þann hóp til að draga úr álagi þar. Þjónusta við aldraða hefur verið styrkt umtalsvert. Heimahjúkrun hefur verið efld. Fjármagni hefur bæði verið beint hingað á höfuðborgarsvæðið og til Akureyrar. Heilsueflandi móttökur innan heilsugæslunnar hafa verið fjármagnaðar sem eru ætlaðar sérstaklega eldra fólki og einstaklingum með fjölþætt og langvinn heilsufarsvandamál. Ég hef sett af stað starfshóp sem vinnur að endurhæfingarstefnu. Við erum í stórsókn í uppbyggingu hjúkrunarrýma og áætlunin sem núna er fjármögnuð í fjármálaáætlun gerir ráð fyrir 580 nýjum rýmum á tíma fjármálaáætlunarinnar. Til samanburðar má geta þess að 140 rými bættust við á tíu árum þar á undan. Dagdvalarrýmum hefur verið fjölgað markvisst og þá erum við að horfa á sértæk dagdvalarrými líka fyrir fólk með heilabilun, sérhæfð dagdvalarrými fyrir MS-fólk og sveigjanlega dagdvöl á Akureyri, sjúkrahótel við Hringbraut hefur verið opnað. Hér eru bara nefnd nokkur verkefni sem eru til þess fallin að draga úr álagi á fjölskyldur sem sinna umönnun ástvina sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda.

Ég vona auðvitað að þessi verkefni hafi einhverja þýðingu í þeim efnum sem hv. þingmaður ræðir hér en mestu máli skiptir að við séum með skýra stefnu í heilbrigðismálum og eflum innviði heilbrigðiskerfisins og byggjum okkar ákvarðanir á þekkingu. Þá horfi ég sérstaklega til mikilvægis þess að vísinda- og fræðimenn eins og Kolbeinn H. Stefánsson (Forseti hringir.) séu á vettvangi með sín gögn og við séum að afla enn frekari gagna, greina þau og byggja ákvarðanir á þeim.