150. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2020.

örorka kvenna og álag við umönnun.

[11:34]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að taka undir það hjá síðasta hv. ræðumanni sem talaði hér að það væri mjög áhugavert að skoða það sem hv. þingmaður fjallaði um. Ef gluggað er í þessa skýrslu sem hv. þm. Guðmundur Andri Thorsson gerði að umtalsefni í upphafi þessarar umræðu sést mikið af tölfræði. Ég verð að segja að ég hef ekki lesið allt sem er að finna þarna en ég finn alla vega lítið af góðum skýringum á því hvers vegna tölfræðin er eins og hún er. Fyrir okkur liggur rannsóknarverkefni á bak við það að útskýra þessar tölur. Á þessari stundu get ég sjálfur alla vega ekki mikið meira en fabúlerað um ástæður þess eða komið fram með einhverjar mildar tilgátur.

Eitt af því sem mér finnst stundum eiga til að gleymast í jafnréttisumræðunni er að skekkja sem kemur niður á einhverju kyni hefur tilhneigingu til þess að hafa áhrif á önnur kyn. Ef skekkja er t.d. til staðar gagnvart karlmönnum og meiri tilætlunarsemi gagnvart því að þeir séu í vinnunni allan sólarhringinn þá er það eitthvað sem í fljótu bragði ætti fyrst og fremst að koma niður á körlum. En sú staða hefur neikvæð áhrif á stöðu kvenna og annarra kynja. Þetta helst allt saman. Ég velti fyrir mér, í svona tilgátustíl, hvort það sé eitthvað í þessum tölum sem við höfum verið að ræða hér sem mætti útskýra með ákveðinni vinnudýrkun sem ég skynja á Íslandi. Það er rosalega sjálfsagt á Íslandi, finnst mér, að fólk sé alltaf í vinnunni og eigi eiginlega að vinna eins mikið og það mögulega getur. Það er hálfsyndsamlegt að vinna ekki eins mikið og maður mögulega getur — og er sú umræða í samhengi við ágætt þingmál sem er hér til umræðu á eftir, um fjölskylduvænt Alþingi, það hlægilega konsept. En slíkt, held ég, lendir aðallega á körlum, að ætlast sé til þess að þeir vinni allan daginn. Það þýðir að ætlast er til að þeir séu ekki að gera neitt annað allan daginn sem þýðir að það lendir á konum. (Forseti hringir.) Mér finnst mikilvægt að við höldum því til haga. Þetta snýst auðvitað ekki um það hvor eigi meira bágt en hinn heldur eru skekkjurnar (Forseti hringir.) bara rangar og vondar og við eigum að glíma við þær, alveg sama hvaða hópi þær bitna á.