150. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2020.

fullgilding Haag-samningsins frá 1954 um vernd menningarverðmæta í vopnuðum átökum.

147. mál
[13:10]
Horfa

Flm. (Njörður Sigurðsson) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um fullgildingu Haag-samningsins frá 1954 um vernd menningarverðmæta í vopnuðum átökum. Meðflutningsmenn mínir eru þingmenn Samfylkingarinnar, þau Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson, Guðjón S. Brjánsson, Guðmundur Andri Thorsson, Helga Vala Helgadóttir og Logi Einarsson. Tillaga þessi var áður flutt á 149. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga og er því endurflutt óbreytt.

Haag-samningurinn frá 1954 er alþjóðasamningur sem gerður var eftir reynsluna í síðari heimsstyrjöldinni þegar ómetanleg menningarverðmæti skemmdust og glötuðust og er hann fyrsti alþjóðlegi samningurinn sem ætlað er að vernda menningararf í vopnuðum átökum. Ríki sem eru aðilar að samningnum skuldbinda sig til að vernda menningarverðmæti þegar vopnuð átök eiga sér stað og nær samningurinn yfir hreyfanleg og óhreyfanleg menningarverðmæti, svo sem byggingar, listaverk, bækur, handrit, skjöl og menningarminjastaði án tillits til uppruna eða eignarhalds. Gagnkvæmur ávinningur aðildarríkja að samningnum er m.a. sá að hann stuðlar að forvarnaaðgerðum á friðartímum með því að aðildarríkin skrá menningarverðmæti, gera neyðaráætlanir gegn eyðileggingu menningarverðmæta, undirbúa flutning hreyfanlegra menningarverðmæta og stuðla að verndun þeirra á vörslustað, aðildarríkin bera virðingu fyrir menningarverðmætum innan eigin landamæra og innan annarra aðildarríkja, stofna þeim ekki í hættu í vopnuðum átökum og eru tilbúin að beita viðurlögum við brotum á samningnum og kynna ákvæði samningsins fyrir almenningi og hagsmunaaðilum, m.a. sérfræðingum í varðveislu menningarverðmæta og viðbragðsaðilum.

Menningarminjar sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt samningnum eru merktar með verndarmerki samningsins, Bláa skildinum. Bláa skjöldinn má m.a. sjá víða á byggingum í Evrópu.

133 ríki eru nú aðilar að samningnum, 110 ríki eru aðilar að fyrsta viðauka samningsins frá 1954 og 81 ríki að öðrum viðauka samningsins frá 1999. Í Evrópu eru öll ríki aðilar að samningnum nema Ísland, Andorra, Moldóva og Malta. Noregur gerðist aðili árið 1961, Svíþjóð árið 1985, Finnland árið 1994 og Danmörk árið 2003.

Við höfum mörg dæmi frá síðustu árum þar sem ómetanlegar menningarminjar hafa skemmst eða eyðilagst í stríðsátökum. Nefna má að árið 1993 var 16. aldar brú í Mostar í Bosníu-Hersegóvínu sprengd upp í vopnuðum átökum. Annað dæmi sem margir kunna að muna eftir er eyðilegging talibana árið 2001 á Búdda-líkneskjum frá 6. öld í Bamiyan-dalnum í Afganistan. Þá vakti ætlun Bandaríkjaforseta, Donalds Trumps, hörð viðbrögð alþjóðasamfélagsins er hann hótaði í byrjun þessa mánaðar að sprengja menningarminjar í Íran ef Íranar myndu hefna fyrir dráp Bandaríkjamanna á Soleimani hershöfðingja í íranska hernum. Bandaríkin gerðust aðilar að Haag-samningnum árið 2009 og því voru þessar hótanir Trumps á skjön við markmið samningsins. Alþjóðasamfélagið brást hart við þessum hótunum Bandaríkjaforseta sem dró að lokum í land.

Menningarverðmæti sem eru eyðilögð eða eyðileggjast verða ekki bætt og eru oftast glötuð að eilífu. Því er vísvitandi eyðilegging menningarverðmæta glæpur gegn þeim hópum eða þjóðum sem þau tilheyra og þannig er höggvið varanlegt skarð í sögu og sjálfsmynd þeirra og í raun er vísvitandi eyðilegging menningarverðmæta stríðsglæpur.

Í 1. gr. samningsins kemur fram að skemmdir á menningarverðmætum sem tilheyra hvaða hópi fólks sem er varði allt mannkyn þar sem hver og einn leggur sitt af mörkum til menningar heimsins. Þannig skiptir varðveisla menningarverðmæta máli fyrir allt mannkyn og þess vegna ættu menningarverðmæti að hljóta alþjóðlega vernd. Á Íslandi myndi aðild að Haag-samningnum frá 1954 um vernd menningarverðmæta í vopnuðum átökum fyrst og fremst hafa þau áhrif að betra yfirlit fengist yfir menningarverðmæti hér á landi og að viðbragðsáætlanir yrðu gerðar á söfnum, bókasöfnum, skjalasöfnum og menningarminjastöðum um hvernig skuli bregðast við ef hætta steðjar að. Ekki síst myndi aðild leiða beint og óbeint til betri og samhæfðari viðbragða til verndar menningarverðmætum þegar náttúruhamfarir verða, svo sem jarðskjálftar, eldgos og flóð.

Á síðasta einum og hálfum áratug höfum við Íslendingar fengið að upplifa hversu hörð og óvægin íslensk náttúra getur verið. Má þar nefna Suðurlandsskjálftann 2008, öskugos í Eyjafjallajökli 2010 og í Grímsvötnum 2011 og nú síðast snjóflóð á Flateyri og Súgandafirði í þessum mánuði. Þá er öruggt að yfirlit og áætlanir um viðbrögð yrðu betri þegar t.d. aðrar hörmungar dynja yfir, svo sem eldsvoðar. Við höfum á síðustu árum séð hörmulegar afleiðingar þeirra á menningarminjar, t.d. eldsvoða sem jafnaði þjóðminjasafn Brasilíu við jörðu árið 2018 og eldsvoðann í Notre Dame kirkjunni í París í fyrra. En það verður líka að hafa í huga að það eru aðeins 80 ár síðan Ísland var hernumið og var þannig dregið inn í hildarleik síðari heimsstyrjaldarinnar. Þá hafði safnafólk áhyggjur af því að menningarverðmæti gætu glatast ef gerð yrði loftárás á Reykjavík og voru m.a. skjöl og bækur flutt úr Safnahúsinu við Hverfisgötu á Flúðir í Árnessýslu þar sem þeim var komið fyrir á meðan á styrjöldinni stóð.

Herra forseti. Undanfarin ár hefur verið vakin athygli stjórnvalda á þessum samningi, m.a. gerði Félag héraðsskjalavarða það með bréfi til mennta- og menningarmálaráðherra árið 2012 og landsnefnd Bláa skjaldarins á Íslandi kynnti Haag-samninginn fyrir landsnefnd um mannúðarrétt í utanríkisráðuneytinu árið 2016. Nú liggur fyrir þinginu þingsályktunartillaga sú sem ég hef hér kynnt og er það von mín að hún fái góða umfjöllun og verði að lokum samþykkt.

Ég legg að lokum til að mál þetta verði sent til frekari vinnslu í utanríkismálanefnd.