150. löggjafarþing — 56. fundur,  3. feb. 2020.

útlendingastefna.

[15:14]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Það var gott að fá svar við þessari spurningu en ég get alveg upplýst að rótin að þessu er einfaldlega sú að við í Viðreisn kölluðum á sínum tíma, vegna mikilla áhyggna okkar af málefnum útlendinga, þáverandi dómsmálaráðherra, Sigríði Andersen, á okkar fund þar sem við lýstum yfir miklum áhyggjum og hvöttum hana til þess, af því að það var heilt ríkisstjórnarsamstarf undir, til þess að fara í það að breyta. Ég hefði haldið að flokkur eins og Vinstri græn, með sína stefnu í málefnum útlendinga, hefði gert nákvæmlega það sama. En gott og vel.

Mig langar þá að spyrja varðandi þingmannanefndina af því að hæstv. ráðherra bendir mikið á hana: Hvað ef þingmannanefndin gefur frá sér yfirlýsingu um að þrengja hlutina, fylgja eftir m.a. þeim tillögum sem forveri hæstv. ráðherra í starfi lagði fram? Þingmannanefndin eins og hún er skipuð getur allt eins sent frá sér þannig tillögur að hlutirnir verði þrengdir. Mun ráðherra þá fylgja slíkri þrengingu eftir ef þingmannanefndin leggur það til? Og ég vil undirstrika það að ég hef enga (Forseti hringir.) trú á því að fulltrúar Viðreisnar, Pírata og Samfylkingar muni leggja það til, en ég er engu að síður pínulítið óttaslegin eða hræðist það aðeins (Forseti hringir.) að þingmannanefndin geri annaðhvort ekkert eða leggi jafnvel fram tillögur sem þrengi hlutina.