150. löggjafarþing — 56. fundur,  3. feb. 2020.

forvarnir og heilsuefling eldri borgara.

[16:04]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda, hv. þm. Willum Þór Þórssyni, kærlega fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga máli. Staðreyndin er sú að okkur hefur í gegnum tíðina verið mjög tamt að kljást við afleiðingar, bregðast við því sem hefur farið aflaga. Ég er ekki að tala um í kerfinu sjálfu, ég er að tala um þegar kemur að heilsu okkar. Við erum að laga, lækna, hjúkra o.s.frv. Því til viðbótar brenna vissulega eldar víða í heilbrigðiskerfinu og það er eðlilegt að orka heilbrigðisyfirvalda fari að miklu leyti í að bregðast við.

Eins og mönnum hefur orðið tíðrætt um hér snúast heilbrigðismál líka um að fyrirbyggja sjúkdóma og ef vel ætti að vera ættu þau að snúast mun meira um það. Það er staðreynd að lífsstílstengdir sjúkdómar eru algengasta orsök heilsutaps í okkar heimshluta. Heilsuefling og forvarnir eiga að vera forgangsmál í heilbrigðisþjónustunni sem langtímafjárfesting í heilsu okkar og vellíðan þjóðarinnar. Hér er ábyrgð okkar sem störfum í stjórnmálum mjög mikil vegna þess að átakið sem fylgir svona áherslum og ávinningurinn sem hlýst af því verður ekki mældur í einu kjörtímabili. Það þarf miklu lengri tíma og það þarf kjark til að horfa til þess tíma. Í því liggja þeir almannahagsmunir sem við ræðum hér. Það þarf vissulega fjármagn í þessi verkefni, það þarf forgangsröðun fjármuna, en það er líka mikilvægt að einfalda leið fólks um kerfið. Hér hafa hv. málshefjandi og aðrir talað um að fólk þurfi að vita hvert á að leita og það þarf að gefa fólki skýran leiðarvísi til heilsueflingar. Þetta þarf að vera í raun hluti af lífi okkar frá vöggu til grafar.

Síðan langar mig rétt í lokin að skjóta því að að ég er þess fullviss, og það eru líka til gögn sem styðja það, að með því að nýta vinnuframlag eldri borgara, þeirra sem hafa starfsorku og vilja til að vinna, og afnema reglur og lög um ákveðinn starfslokaaldur verður lagður grunnur að betri heilsu og betri líðan töluverðs hóps okkar eldri borgara. Það er því hægt að gera ýmislegt til að vinna í þessum málum.