150. löggjafarþing — 56. fundur,  3. feb. 2020.

skimun fyrir legháls- og brjóstakrabbameini.

404. mál
[16:44]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka góða umræðu og vil líka nefna að ég held að það sé til góðs að hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir, nú forseti Alþingis, leggi fram skriflega fyrirspurn um þessi mál af því að ég held að það sé gott að þetta komi fram á þingskjölum. Eins og kom fram í fyrra svari mínu er verkefnisstjórn að störfum og hún hefur það hlutverk frá mér að útfæra tillögurnar og ákvarðanir um breytt skipulag á stjórnun, staðsetningu og framkvæmd skimana. Þessar tillögur hef ég ekki enn fengið í hendur þannig að ég er að svara hér og nú með fyrirvara um það að ég hef ekki fengið þessar niðurstöður. Það er þó algjörlega á hreinu, þannig að þingheimur sé upplýstur um það, að þegar verið er að breyta fyrirkomulagi þjónustu þarf að gæta að þáttum eins og aðgengi, öryggi þjónustunnar, gæðum og að þjónustan sé byggð á þekkingu og gagnreyndum aðferðum. Samfella í þjónustunni er algjört lykilatriði. Þjónusta við konur með klínísk einkenni frá brjóstum er mjög sérhæfð þjónusta og er erlendis yfirleitt skipulögð í heild sinni, oft í sérstökum brjóstamiðstöðvum sem eru í tengslum við háskólasjúkrahús, til að tryggja samfellu í þjónustunni. Þá skiptir mjög miklu máli að við gerum miklar kröfur þar. Landspítali og Sjúkrahúsið á Akureyri eiga eftir að skoða hvernig þessum skimunum verði komið fyrir vegna brjóstakrabbameina úti um land.

Ég tek mjög alvarlega ábendingu hv. þm. Líneikar Önnu Sævarsdóttur um mikilvægi þess að koma þessum upplýsingum á framfæri við konur. Vitund um það hvernig þessu er fyrir komið er hluti af kvennamenningu, hluti af því hvernig við skiptumst á skoðunum og tölum um heilsu okkar sjálfra, vinkvenna okkar, dætra og mæðra, að ég tala ekki um systra. Ég tek það mjög alvarlega og mun passa upp á að þetta verði kynnt kirfilega.