150. löggjafarþing — 57. fundur,  4. feb. 2020.

viðgerðir á jarðvegsrofi vegna utanvegaaksturs utan þjóðgarða.

126. mál
[16:53]
Horfa

Flm. (Hanna Katrín Friðriksson) (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka andsvarið. Mér þykir leitt að heyra að hv. þingmaður telji að hér sé um óvönduð vinnubrögð að ræða. Tillagan felur í sér að Alþingi feli umhverfis- og auðlindaráðherra að setja á fót jarðbótasjóð sem hafi það að markmiði að standa undir viðgerðum á jarðvegsrofi. Það er mælst til þess, eins og ég tók fram, að þær sektir sem nú er verið að beita fyrir utanvegaakstur renni beinlínis til viðgerða á þessum sömu skemmdum sem unnar eru. Ég veit og geri ráð fyrir því til viðbótar að innan ráðuneytisins séu til staðar þær upplýsingar sem þörf er á að hafa. Ég er alveg sammála því og það er rétt að mjög jákvæð skref hafa verið tekin í átt að aukinni vitundarvakningu. Margt horfir til betri vegar en það breytir því ekki að ríkið tekur, eins og er í dag, þátt í því að lagfæra skemmdir innan þjóðgarða. Það er sektað fyrir þær skemmdir sem verða utan þjóðgarða en þær sektir renna ekki í að lagfæra þær skemmdir. Það er undir þann leka sem við viljum setja með þessari tillögu.

Ég held að það ætti ekki að stoppa málið að í greinargerð sé ekki upptalning á því hversu miklar sektir þetta eru frá ári til árs. Ég tel nokkuð ljóst að þær upplýsingar muni koma upp úr vinnu umhverfis- og auðlindaráðherra. Það er tiltölulega einfalt mál. Þetta er þingsályktunartillaga um að fela umhverfis- og auðlindaráðherra að setja þennan sjóð á stofn til að stemma stigu við máli sem við þekkjum. Ég geri ekki athugasemdir við að hv. þingmaður hefði viljað sjá frekari upplýsingar en mitt mat er að þær upplýsingar sem hér eru séu nægar til að fela ráðherra að gera bragarbót á málinu.