150. löggjafarþing — 59. fundur,  17. feb. 2020.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga.

555. mál
[16:00]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018, sem er um þagnarskyldu persónuverndarfulltrúa. Þessi lagabreyting kemur frá allsherjar- og menntamálanefnd.

1. gr. hljóðar svo:

„1. mgr. 36. gr. laganna orðast svo:

Persónuverndarfulltrúa er óheimilt að segja frá nokkru því sem hann hefur fengið vitneskju um í starfi sínu og leynt á að fara. Enn fremur hvílir þagnarskylda á persónuverndarfulltrúa samkvæmt X. kafla stjórnsýslulaga eftir því sem við á.“

2. gr. er um að lögin taki þegar gildi.

Tilefni þessarar breytingar er lög nr. 71/2019, um breytingu á stjórnsýslulögum, þar sem nýjum kafla um tjáningarfrelsi og þagnarskyldu var bætt við stjórnsýslulög og um leið var gerð sú breyting að 1. mgr. 36. gr. persónuverndarlaga skyldi orðast svo:

„Á persónuverndarfulltrúa hvílir þagnarskylda samkvæmt X. kafla stjórnsýslulaga.“

Þar sem persónuverndarfulltrúar eru ekki allir opinberir starfsmenn og falla því ekki allir undir gildissvið stjórnsýslulaga telur nefndin nauðsynlegt að lagfæra ákvæðið. Fyrir breytingu kvað ákvæðið á um að persónuverndarfulltrúum væri óheimilt að segja frá nokkru því sem þeir hefðu fengið vitneskju um í starfi sínu og leynt ætti að fara. Í ljósi þess að veigamiklir hagsmunir eru fólgnir í því að persónuverndarfulltrúar á einkamarkaði séu bundnir þagnarskyldu um þann hluta starfa þeirra sem leynt á að fara telur nefndin brýnt að gera framangreindar breytingar á ákvæðinu. Það verði því engum vafa undirorpið að þagnarskylda gildi jafnt um persónuverndarfulltrúa á einkamarkaði og hjá hinu opinbera.