150. löggjafarþing — 59. fundur,  17. feb. 2020.

háskólar og opinberir háskólar.

185. mál
[17:55]
Horfa

Flm. (Bryndís Haraldsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um háskóla og lögum um opinbera háskóla, breytingum sem lúta að því að auka frelsi háskólanna til að meta fjölbreytt nám til inntöku í þá. Í dag segir í 19. gr. laga um háskóla að nemendur sem hefja nám í háskóla skuli hafa lokið stúdentsprófi eða jafngildu prófi. Þar segir jafnframt, með leyfi forseta:

„Heimilt er háskólum að innrita nemendur sem búa yfir jafngildum þroska og þekkingu að mati viðkomandi háskóla. Tryggja skal að inntökuskilyrði í háskóla og námskröfur svari jafnan til þess sem krafist er í viðurkenndum háskólum á sambærilegu sviði erlendis.“

Þetta hefur í grunninn þýtt að þeir sem ekki hafa stúdentspróf hafa á köflum getað verið metnir inn í háskóla en þá á undanþáguheimildum. Það sem við leggjum til í þessu frumvarpi er að 1. mgr. 19. gr. laga um háskóla orðist svo, með leyfi forseta:

„Nemendur, sem hefja nám í háskóla, skulu hafa til þess þá færni og þekkingu sem svarar til krafna skólans um undirbúning fyrir nám á háskólastigi. Leggja skal heildstætt mat á umsækjendur og meta einstaklinga sem hafa lokið stúdentsprófi, sveinsprófi eða öðru fag-, starfs- eða listnámi. Tryggja skal að inntökuskilyrði í háskóla og námskröfur svari jafnan til þess sem krafist er í viðurkenndum háskólum á sambærilegu sviði erlendis.“

Sambærilega breytingu leggjum við til við lög um opinbera háskóla.

Með mér flytja þetta frumvarp hv. þingmenn Haraldur Benediktsson, Jón Gunnarsson, Njáll Trausti Friðbertsson, Páll Magnússon og Vilhjálmur Árnason. Þess ber að geta að frumvarpið var áður lagt fram á 149. löggjafarþingi og þá var fyrsti flutningsmaður þess hv. þingmaður og núverandi hæstv. ráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir. Það náði því miður ekki inn í nefnd þannig að við höfum ekki fengið umsagnir um það.

Í frumvarpi þessu er lagt til að skýrt verði kveðið á um það í lögum um háskóla og lögum um opinbera háskóla að nemendur sem búa yfir þeirri færni og þekkingu sem svarar til krafna skólans um undirbúning fyrir nám á háskólastigi eigi þess kost að fá inngöngu í háskóla. Ekki verði lengur gerð sérstök krafa um stúdentspróf eða annað sambærilegt próf en þess í stað verði það á valdi háskólanna sjálfra að ákveða mismunandi kröfur fyrir einstakar námsleiðir. Frumvarpinu er ætlað að gera iðn-, verk- og starfsnámi jafn hátt undir höfði og bóknámi í löggjöf um inntökuskilyrði í háskóla.

Með frumvarpinu teljum við að við séum að opna dyr að háskólanum fyrir nemendur sem hafa lokið öðru námi en stúdentsprófi. Þrátt fyrir að það séu, eins og ég kom inn á áðan, ákveðnar undanþáguheimildir, þá hafa þeir aðilar mætt ákveðnum afgangi þegar nemendur eru teknir inn í háskólanám. Því er ljóst að iðnnámið eða aðrar námsleiðir en hið hefðbundna bóklega stúdentspróf hefur ekki verið jafn gilt. Markmiðið með frumvarpinu er ekki að fleiri sæki sér háskólamenntun heldur að háskólar séu opnari til þess að taka á móti fjölbreyttari hópi nemenda með mismunandi bakgrunn sem hafi þó næga þekkingu til þess að stunda háskólanám í ákveðnum námsgreinum. Stúdentspróf verður örugglega áfram hin hefðbundna leið til undirbúnings undir bóklegt háskólanám en verði frumvarpið að lögum verður það ekki lengur aðalkrafa við innritun.

Háskólum á að vera í sjálfsvald sett hvaða inntökuskilyrði þeir setja fyrir einstakar deildir og greinar innan skólans, hvort þeir hafi inntökupróf eða geri kröfu um stúdentspróf eða sveinspróf. Engin ástæða er til þess fyrir löggjafann að setja háskólanum skorður um inntökuskilyrði því að enginn er betur til þess fallinn að meta þau en skólarnir sjálfir. Nánari útfærsla á þessu fyrirkomulagi getur verið í höndum stofnana á háskólastigi. Þannig má sem dæmi taka að hugsanlega þarf að gera auknar kröfur um stærðfræðiþekkingu sem skilyrði á tilteknum námsbrautum og auknar kröfur um raungreinaþekkingu á öðrum. Í þessu samhengi er þó mikilvægt að auka valfrelsi verðandi háskólanema til þess að sækja sér aukna menntun.

Í mörg ár hefur verið bent á nauðsyn þess að fjölga iðn- og tæknimenntuðu fólki hér á landi og að auka virðingu fyrir iðn- og verknámi og öðrum bakgrunni. Ljóst er að mikill skortur er á fólki í atvinnulífinu með iðnmenntun en fyrst og fremst er mikilvægt að breyta hugarfari fólks gagnvart annarri menntun en stúdentsprófi. Því verður ekki náð nema með því að þora að stíga skref til þess að gera fjölbreyttri menntun jafn hátt undir höfði.

Það er nú samt þannig, virðulegur forseti, að við fengum fréttir af því fyrir helgi og höfum séð það á allra síðustu árum, ég held bara á síðustu tveimur árum, að ásóknin í iðnnám hefur aukist mikið og nú er meira að segja svo komið að Tækniskólinn, sem tók við af gamla Iðnskólanum, hefur þurft að vísa í auknum mæli nemendum frá vegna plássleysis eða ekki getað tekið við fleiri nemendum. Ég held að það sé eitthvað sem við þurfum að ræða hér því að við virðumst vera að ná ákveðnum árangri í því að fjölga þeim sem kjósa þetta nám.

Í ljósi fjórðu iðnbyltingarinnar og þeirrar miklu þróunar sem á sér stað í atvinnulífi eru allir sammála um mikilvægi iðn- og tæknimenntunar. Þá teljum við sem þetta frumvarp flytjum líka mikilvægt að þeir sem fara í slíkt nám eigi möguleika á háskólanámi, kjósi þeir að fara í það síðar, án þess að þurfa endilega að fara í það sem kallað hefur verið fornámsbrautir eða útskrifast sem tæknistúdent eða eitthvað slíkt.

Í grunninn held ég að nútímasamfélag kalli einmitt eftir fjölbreyttari reynslu. Þetta kom töluvert til umræðu eftir að lögreglunámið færðist til Háskólans á Akureyri og við fengum fréttir af því að aðilum með iðnmenntun hefði verið hafnað eða þeir ekki verið teknir inn í námið og þeir hefðu gengið fyrir sem höfðu stúdentspróf. Ég hygg að eitt af markmiðunum með því að setja lögreglunámið upp á háskólastig hafi verið að auka enn frekar menntun og þekkingu lögreglumanna en ekki síður er mikilvægt líka að þessi starfsstétt, eins og svo margar aðrar, hafi breiðan bakgrunn. Það hefur löngum verið talinn ákveðinn kostur, til að mynda, fyrir það nám að hafa iðnmenntun.

Mig langar líka að nefna í þessu samhengi að ég er greinilega orðin það miðaldra að ég útskrifaðist með mitt háskólapróf, mína BS-gráðu, úr Tækniskólanum sem þá var. Ég hóf nám í Tækniskólanum gamla og útskrifaðist úr Tækniháskólanum. Í dag er þessi skóli sameinaður Háskólanum í Reykjavík. Eitt af því sem var mjög sérstakt við gamla Tækniskólann, og ég vona að hafi með einhverjum hætti tekist að halda eftir í Háskólanum í Reykjavík, var einmitt samsetning nemendahópsins. Það voru ekki allir að koma beint úr framhaldsskólunum inn í háskólanám heldur var þarna fólk sem hafði víðtæka reynslu úr atvinnulífinu ásamt okkur sem sum hver komu fljótlega eftir stúdentspróf. Ég held að þetta sé líka tækifæri fyrir háskólana að geta tekið inn fólk með mismunandi bakgrunn og það gefur ákveðna vídd í menntunina.

Í greinargerðinni með frumvarpinu vísum við í mynd, sem prentast reyndar ekki mjög vel, ég bendi áhugasömum á að skoða myndina á netinu þar sem hún birtist í lit og er auðlæsilegri. Hún sýnir hlutdeild nemenda í starfsnámi í framhaldsskóla sem sækja þau fög sem veita aðgang að háskólanámi. Þá kemur í ljós að t.d. í Finnlandi, sem við viljum gjarnan bera okkur saman við þegar kemur að menntakerfinu enda hafa Finnar staðið sig mjög vel þar, hafa í rauninni allir þeir sem eru í starfsnámi í framhaldsskóla aðgang að háskólanámi. Ísland er með allra neðstu löndum, ég get ekki einu sinni lesið prósentuna út úr þessu því að það eru bara örfá prósent. Flest önnur lönd sem við berum okkur saman við og önnur Evrópulönd eru með mun hærri hlutdeild, meðaltalið er í kringum 65–70%. Ég held að þetta séu einmitt enn frekari rök með samþykkt þessa frumvarps. Ég hef reyndar líka stundum talað fyrir því að allt iðnnám ætti að enda með stúdentsprófi. En við höfum ekki náð því og þess vegna held ég að ástæða sé til að breyta a.m.k. lögum um háskóla þannig að hægt sé að taka inn nemendur með mismunandi bakgrunn og reynslu. Háskólunum er auðvitað í sjálfsvald sett hvaða kröfur þeir telji sig þurfa að setja fyrir inngöngu í nám.

Mig langar í þessu samhengi að nefna til að mynda að við höfum verið með ákveðnar áherslur varðandi hjúkrunarnám því að allt of fáir hafa farið í hjúkrun og núna er verið að bjóða styttri námsleiðir fyrir aðila sem hafa annað háskólapróf. Það gæti verið einstaklingur sem er sjúkraliði með margra ára reynslu og ýmis námskeið að baki og maður veltir sér af hverju sá aðili sem tæki einhvern undanfara fyrir hjúkrunarnám væri ekki eins vel til þess fallinn og 19 ára ungmenni sem væri að koma úr framhaldsskóla til að fara í það nám. Við getum tekið sem dæmi sköpun, listnám, tækninám, hvort þeir einstaklingar væru ekki til þess fallnir að fara í háskólanám á sviði tækni eða verkfræði eða í kennslu þar sem aðsókn hefur líka ekki verið næg. Í rauninni erum við fyrst og fremst að færa rök fyrir því að við verðum svolítið víðsýnni þegar kemur að háskólanámi, kröfurnar eru að breytast svo mikið. Eitt af því sem ég held að verði gerð hvað mest krafa um er einmitt sköpunargáfa og að hæfni okkar sé misjöfn. Hún sé ekki öll komin til úr bóknáminu þó að ég ætli ekki að tala það niður. Þessi fjölbreytni er stór hluti af því. Við höfum lengi talað fyrir því að við þurfum að auka áhuga ungs fólks á iðnmenntun og tæknimenntun. Við höfum verið svolítið upptekin af því á Íslandi að setja þetta í ákveðin box, þú ert annaðhvort að fara í bóknám til stúdentsprófs eða í iðnnám og hvaða framtíðarmöguleikar eru eftir því. Þetta væri ein leið til að opna aðeins þessi box.

Mig langar líka að nefna dæmi um framhaldsskólann í Færeyjum sem ég heimsótti nýlega. Þau voru mjög upptekin af því að nemendur þyrftu ekki að velja ákveðin box heldur eru þessar námsleiðir allar í boði í framhaldsskólanum í Færeyjum sem starfar undir sama þaki og allir geta séð hvað hinir eru að gera, auðvelt er að velja valfög á milli námsbrauta og þannig auka færni einstaklinga og fjölbreytni námsins. Ég hygg að þetta sé eitthvað sem við þurfum að skoða enn frekar.

Ég held að ég þurfi ekki að hafa þetta miklu lengra, greinargerðin er ítarleg og þar er farið ágætlega yfir þá þróun sem við höfum séð í könnunum, hvað ungt fólk virðist vera að velja og hvar áherslur þeirra liggja þegar verið er að skoða þetta og jafnframt þegar við berum okkur saman við önnur Evrópulönd. Þau virðast í auknum mæli hafa opnað leiðir starfsnámsbrauta í framhaldsskólum inn í háskólanám.

Ég legg til, virðulegur forseti, að frumvarpið fari að lokinni þessari umræðu til allsherjar- og menntamálanefndar og vænti þess að það fái skjóta framgöngu hér á þingi.