150. löggjafarþing — 62. fundur,  24. feb. 2020.

heimild forstöðumanna ríkisstofnana til að hækka eftirlaun.

[15:19]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að fagna umræðu um lífeyrisskuldbindingarnar sem oft eru út undan í allri opinberri umræðu um kjaramál opinberra starfsmanna, og lítill gaumur hefur verið gefinn áhrifum þess fyrir framtíðarlífeyrisskuldbindingar þegar gengið er frá kjarasamningum almennt. Í þessu tilviki er það mat okkar í fjármálaráðuneytinu að menn hafi verið innan heimilda til að gera þær breytingar á starfskjörum sem um er fjallað í svarinu. Hv. þingmaður fullyrðir að hér hafi það verið gert í þessum eina tilgangi. Ég ætla ekki að úttala mig neitt um það en það er alveg rétt að breytingar á kjörum geta haft mjög veruleg áhrif á lífeyrisskuldbindingar og almennt eru þær allt of aftarlega í allri umræðu hjá okkur. Við höfum gert átak í að gera upp eldri lífeyrisskuldbindingar en við eigum enn langt í land með að ljúka því uppgjöri.

Spurt er að því hvort eðlilegt sé að menn hafi slíkar heimildir. Við erum almennt að vinna með miðlæga kjarasamningagerð og eftirlátum stofnunum að útfæra það innan þess ramma sem samið hefur verið um hverju sinni. Hér hafa menn komist að þeirri niðurstöðu að í þessu tiltekna embætti hafi menn haft heimildir til að ganga frá þessari útfærslu samninga. Það verður bara að meta hverju sinni. Við höfum ekki látið framkvæma útreikninga af þeim toga sem spurt er um, þ.e. hvaða kostnaður myndi fylgja því ef þetta myndi ganga yfir alla aðra opinbera starfsmenn í sambærilegri stöðu.