150. löggjafarþing — 62. fundur,  24. feb. 2020.

leiga skráningarskyldra ökutækja.

386. mál
[16:52]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Alvarleiki þessa máls þykir mér vera af slíku kalíberi, ef ég má sletta aðeins, að það er eiginlega ekki nokkur einasta leið að greiða því atkvæði. Það er alveg með ólíkindum að senda þau skilaboð út í samfélagið að menn megi í rauninni brjóta gegn almennum hegningarlögum og hvaðeina og ljúga, svíkja og pretta og það í risavís með einbeittan brotavilja og það eina sem á að gera er að slá aðeins á puttann og segja: Ef þú svindlar nokkrum sinnum í viðbót ertu löngu búinn að vinna þér nóg inn með svindlinu til að borga þá litlu sekt sem við ætlum að leggja á þig.

Ég bara verð að segja að ef ég fengi að ráða, sem ég geri ekki, hefði ég svipt þessa bílaleigu rekstrarleyfi á stundinni í einhvern ákveðinn tíma og sent henni skýr skilaboð: Svona gera menn ekki.