150. löggjafarþing — 68. fundur,  3. mars 2020.

þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

317. mál
[16:11]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég kem hingað upp í andsvör vegna þess að mér finnst ansi stór orð vera höfð uppi í umræðunni. Hv. þm. Birgir Þórarinsson talar um að hér sé verið að stoppa í glufur ríkinu til hagsbóta. Einnig hefur verið talað um ásælni í eignarlönd bænda, að það sé það sem verið er að gera með þessu, að það sé afleiðingin af þessu frumvarpi. Ég kem fyrst og fremst upp í andsvör til að mótmæla þessu.

Líkt og segir í greinargerð með frumvarpinu er megintilgangurinn með lagasetningunni að greitt verði úr óvissu um eignarrétt á landi og það gengur á báða bóga. Ástæða þykir til að taka nokkur ákvæði laganna til endurskoðunar, sérstaklega í ljósi reynslunnar af verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga og einnig þar sem sér fyrir endann á starfi óbyggðanefndar. Málin sem eru eftir eru að stóru leyti þau sem liggja kannski ekki hvað beinast við og eru flókin og erfið úrlausnar. Það hefur verið farið ágætlega yfir það, hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir gerði það í framsöguræðu sinni. Hún fór yfir það að ákvæði í Jónsbók hefðu ekki verið felld úr gildi heldur gildi þau enn þá. Ég get því ekki séð að það þurfi endilega að gera einhverja sérstaka umræðu úr því. En það er hins vegar verið að bæta inn aukastigi þar sem verið er að draga úr umfanginu sem fylgir gagnasöfnun þar sem sumt af því er lýtur að eyjum og skerjum liggur hreinlega fyrir. (Forseti hringir.) Ég vil spyrja hv. þingmann, þótt þetta andsvar mitt hafi kannski fyrst og fremst verið (Forseti hringir.) til að auka á skýrleika, hvort hann telji þetta ekki vera bændum til hagsbóta.