150. löggjafarþing — 69. fundur,  4. mars 2020.

breyting á ýmsum lögum varðandi leyfisveitingar.

332. mál
[17:31]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Okkur í þingflokki Miðflokksins líst mjög vel á atriði sem snúa að III. og IV. kafla þessa frumvarps þar sem annars vegar er talað um breytingu á lögum um samvinnufélög og hins vegar um brottfall ýmissa laga eins og komið hefur fram í umræðunni. Markmiðin sem leidd eru fram í I. og II. kafla frumvarpsins eru prýðisgóð og við eigum alla daga að leita leiða til einföldunar þess regluverks sem atvinnulífið þarf að undirgangast hverju sinni.

Að skoðuðum umsögnum Bílgreinasambandsins annars vegar og Samiðnar, sambands iðnfélaga, hins vegar sýnist mér að kappið sé kannski fullmikið í þessu máli og að það hefði verið skynsamlegt að taka aðeins betri tíma í að ígrunda málið. Markmiðið er engu að síður gott og því er hægt að ná fram og á að ná fram, en við teljum að það hefði mátt skoða betur og taka tillit til þeirra athugasemda sem bílgreinin annars vegar og iðnfélagaumhverfið hins vegar settu fram.