150. löggjafarþing — 69. fundur,  4. mars 2020.

heilbrigðisþjónusta.

597. mál
[19:18]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ólafi Ísleifssyni fyrir vel unnið frumvarp. Ég er einn af meðflutningsmönnum og tel málið til bóta fyrir rekstur Landspítalans og frumvarpið sem slíkt mjög tímabært, ekki síst í ljósi vanda Landspítalans sem er margvíslegur og þeirra sársaukafullu aðhaldsaðgerða sem hann stendur nú frammi fyrir. Vandi spítalans er ekki aðeins fjárhagslegur heldur skipulagslegur og margt bendir til að spítalinn sé að taka að sér verkefni sem væru betur niður komin annars staðar. Það er nú svo að opinberum fyrirtækjum er ekki síður en einkafyrirtækjum mikilvægt að starfa á grundvelli góðra stjórnarhátta. Það heyrir víðast hvar sögunni til að litið sé á stjórnir opinberra fyrirtækja sem framlengingu á stefnu stjórnmálaflokka, enda er stjórnunum ómögulegt að starfa að lögbundnu hlutverki sínu í slíkum fjötrum. Stjórnarmenn í opinberum fyrirtækjum bera sömu ábyrgð og skyldur og stjórnarmenn í einkafyrirtækjum. Þeim ber fyrst og fremst að vinna að lögbundnu hlutverki fyrirtækisins og/eða viðkomandi stofnunar og trúnaður þeirra liggur fyrst og fremst við fyrirtækið eða stofnunina.

Fjárhagsvandi Landspítalans er árlegt viðfangsefni eins og við þekkjum og því fylgir oft neikvæð umræða sem gerir það að verkum að hið mikilvæga og frábæra starf sem starfsmenn spítalans vinna dag og nótt undir miklu álagi fellur í skugga. Auk þess veldur þessi neikvæða umræða sjúklingum áhyggjum og óöryggi. Það skiptir auðvitað miklu máli hvernig stjórn spítalans yrði samansett. Hún þarf að hafa faglega og stjórnunarlega þyngd, ef svo má að orði komast, og stjórnin verður að vera faglega skipuð en ekki pólitískt og hún þyrfti að hafa víðtæka reynslu af stefnumörkun og rekstri eins og getið er um ágætlega í 1. gr. frumvarpsins. Ríkissjóður þarf að leggja til um 70 milljarða árlega í rekstur Landspítalans og við verðum að sjálfsögðu að gera kröfu um að þjónustustigið sé gott, faglegur styrkur góður og það sé farið skynsamlega með þessa miklu fjármuni.

Ég lít ekki svo á að með þessu séu stjórnendur spítalans ekki hæfir til að stýra spítalanum. Stjórn yfir spítalanum hefur eftirlit með rekstrinum og hún á ekki að stýra rekstri, það er hugmyndafræðin á bak við þetta frumvarp. Hún á síðan að hafa veg og vanda með stefnumörkun og eftirliti með faglega þættinum. Í þessu felst ákveðinn stuðningur í að hafa samband við þá sem stýra fjárveitingum til spítalans en líka aukið aðhald á stjórnendur spítalans að sinna þeim málum sem virkilega þarf að sinna.

Alþjóðlegar kannanir á meðal stjórnenda á stjórnarháttum sýna að það eru mjög sterk tengsl milli allra þátta stjórnunar, áhættu og eftirfylgni. Það þarf því skilvirka stjórn svo fyrirtæki takist að stjórna áhættu og innleiða árangursríka eftirfylgni. Stjórn þarf að hafa skýr markmið, fylgja þeim eftir og einbeita sér að mikilvægustu málunum svo hægt sé að ræða þau til fulls og ákvörðunartaka sé í réttri forgangsröð. Það er ekki bara nóg að skipa stjórn heldur er einnig mikilvægt að stjórnin meti með reglulegum hætti störf sín, verklag og starfshætti svo og framgang spítalans með aðstoð utanaðkomandi aðila eftir því sem við á. Slíkt árangursmat gerir stjórn kleift að leggja mat á styrkleika sína og veikleika og huga að þeim hlutum sem betur mega fara. Því verður að skilgreina hlutverk stjórnarinnar vel. Hún á að vera eftirlitsstjórn, ráðgjafarstjórn og stefnumótandi stjórn. Mikilvægt er að tryggja nauðsynlega breidd og dýpt þekkingar innan stjórnarinnar. Það er ekki líklegt að hver og einn stjórnarmaður hafi fullkomna yfirsýn yfir alla þætti í flóknu rekstrarumhverfi. Ef stjórnin á að geta sinnt hlutverki sínu er því mikilvægt að samanlögð þekking stjórnarmanna sé þess eðlis að stjórnin geti metið rekstur spítalans með sjálfstæðum hætti og veitt stjórnendum nauðsynlegt aðhald sem og nauðsynlegan stuðning. Það er því ekki síður mikilvægt að horfa til samsetningar stjórnarinnar sem heildar þegar þekking stjórnarmanna er metin en þekkingar einstakra stjórnarmanna.

Sá agi og sú formfesta sem góðir stjórnarhættir tryggja dregur úr margvíslegum hættum, ekki síst í litlu samfélagi, og er til þess fallið að auka trúverðugleika og traust í garð spítalans. Fyrrverandi landlæknir og núverandi aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra tjáði sig um hugmyndir um að setja stjórn yfir Landspítalann fyrir þremur árum og leist honum vel á þær. Hann segir að hafi stjórnin faglega og stjórnunarlega þyngd yrði það góður stuðningur fyrir stjórnendur Landspítalans í framtíðinni.

Herra forseti. Stöðugleiki, fagmennska og heiðarleg umræða eru allt þættir sem styrkja Landspítalann sem eina af mikilvægustu stofnun landsins. Að skipa stjórn yfir starfsemina er nauðsynlegt svo stjórnendur geti rækt hlutverk sitt af alúð, þeir fái þann stuðning sem þeir þurfa og eðlilegt eftirlit sé haft með fjármálum spítalans.