150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

bætt uppeldi, leið til forvarna og lýðheilsu.

[11:38]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Eins og aðrir þingmenn þakka ég fyrir þessa umræðu og velti fyrir mér hvort þetta sé ekki hreinlega í fyrsta skipti sem uppeldismál eru rædd á Alþingi. (Gripið fram í.) Jæja, kannski er kominn tími til. Mér fannst áhugaverðar spurningar sem lagðar voru fyrir hæstv. ráðherra, hver væri framtíðarsýn ráðherrans um bætt uppeldi hér á landi og hvernig ráðherra teldi best að haga uppeldi barna og ungmenna sem og hvort ráðherra hygðist beita sér fyrir því að uppfyllt yrði aðgerð lýðheilsustefnunnar um uppeldi og færni til framtíðar.

Sem betur fer hefur rannsóknum fleygt fram um það hvað æskilegt sé fyrir börnin okkar og hvernig uppeldisaðferðir virki best. Einstaklingarnir eru þó misjafnir og það eru börnin líka og þannig kunna misjafnar aðferðir að henta hverju barni. Ég vil að sjálfsögðu í þessu eins og svo mörgu öðru hlusta á sérfræðingana og verð að segja að af því fólki sem hér hefur talað, af mínum ágætu samstarfsþingmönnum, held ég að fáir séu í þeim hópi að vera sérstakir sérfræðingar í uppeldismálum nema kannski einna helst þá málshefjandinn sem þekkir málið mjög vel. Mér finnst eðlilegt að það sé hluti af lýðheilsustefnu okkar og þjónustu að við bjóðum foreldrum að fá fræðslu um hvernig uppeldi sé best háttað. Fjöldinn allur af sérfræðingum býður líka fram þjónustu sína og með einfaldri leit á veraldarvefnum sést fjöldi heimasíðna, fjöldi góðra ráða og námskeiða sem í boði eru. Ég vil forðast að við ríkisvæðum með einhverjum hætti uppeldisaðferðir og með fullri virðingu fyrir hæstv. heilbrigðisráðherra, sem ég efast ekki um að er líka hin besta mamma, held ég að hún sé ekki helsti aðilinn til að segja fólki nákvæmlega hvernig eigi að ala upp börn, ekki frekar en aðrir þingmenn sem hafa talað hér í dag. Sjálf er ég móðir og reyni að gera eins vel og ég get í þeim efnum en ekki ætla ég að segja öðrum fyrir verkum. Ég held að umræða um það hvort hér verði leyft að auglýsa áfengi, (Forseti hringir.) hvort afglæpavæða eigi fíkniefni eða hvernig best sé að bregðast við þeirri miklu vá sem steðjar að vegna fíkniefna sé ekki endilega rétta efnið í umræðu um uppeldi barna. (Gripið fram í: Nú?) (Gripið fram í: Jú.)