150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

afnám 70 ára aldurstakmörkunar í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

397. mál
[19:01]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir andsvarið, en ef hún hefði kynnt sér hvað varð um mál Miðflokksins á sínum tíma, tvö þing í röð, hefði hún komist að því að samtök launamanna á opinberum markaði sendu inn umsagnir um það mál og mættu á nefndarfundi til að ræða það mál, þannig að það var ekki eins og eitthvert samráðsleysi væri um málið. Ég ætla að bæta því við að nú í haust þegar þessu máli Miðflokksins var vísað til ríkisstjórnarinnar innifól sú vísun það að tíminn núna fram á vor yrði nýttur til samráðs við verkalýðshreyfinguna, þ.e. þann enda hennar sem á við opinbera starfsmenn. Sumarið yrði síðan notað í það að semja lagafrumvarp og það lagt fram hér í haust.

Og eins og ég segi aftur: Nú er Alþingi með þessu að álykta að fela fjármála- og efnahagsráðherra, í samráði við félags- og barnamálaráðherra, að hefja viðræður sem þegar eru hafnar. Hafi eitthvað verið gert með það frumvarp sem var vísað til ríkisstjórnarinnar í haust eru þessar viðræður þegar hafnar, séu menn að standa sig. Það var einmitt innihaldið í þeirri vísun, eins og ég var að segja, að vorið yrði notað til þess að eiga samráð við launþegasamtök opinberra starfsmanna. Það var aldrei ætlunin á sínum tíma þegar frumvarpið var lagt fram að leggja það fram og meitla það í stein og enginn hefði um það að segja hvernig það færi fram. Þess vegna bárust umsagnir frá þessum ágætu samtökum um málið og hægt er að kynna sér þær því að þær eru á vef Alþingis hangandi á þeim málum, hvort sitt þingið, hvað þar kom fram. Það var enginn vilji með því frumvarpi að leggja eitthvað fyrir menn sem þeir gætu ekki haft skoðanir á, alls ekki.