150. löggjafarþing — 72. fundur,  12. mars 2020.

upplýsingalög.

644. mál
[16:52]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta svar en ég er kannski enn svolítið að spyrja hvort það hafi verið skoðað hversu langan tíma beiðni um frestun á réttaráhrifum geti tafið málsmeðferð. Er hægt að fara í venjulegt dómsmálaferli eða hvernig var það metið hvernig slík málsmeðferð myndi fara fram? Svo leikur mér forvitni á að vita hvað geri það að verkum að lögð eru til í frumvarpinu þau nýmæli að gagnasendingar á milli opinberra aðila um framkvæmdir á vegum ríkisins skuli teljast vinnugögn. Hvers vegna þurfti að fara sérstaklega í þær aðgerðir og hver var rökstuðningurinn á bak við það að takmarka aðgengi að þessum upplýsingum miðað við kannski aðrar framkvæmdir eða aðrar aðgerðir sem stofnanir ríkisins standa í en þurfa samt sem áður að sætta sig við að verði að upplýsingalagaskyldum gögnum við viðskipti milli stofnana?