150. löggjafarþing — 72. fundur,  12. mars 2020.

sveitarstjórnarlög.

648. mál
[18:45]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði í upphafi bara að leyfa kollegum mínum og flokksfélögum, hv. þingmönnum, að segja það sem segja þarf um þetta mál. Ég tek undir málflutning þeirra. Við að hlýða á málflutning þeirra sem hafa tekið þátt í samtalinu í dag frá hinni hliðinni gat ég hins vegar ekki á mér setið og ég verð aðeins að fjalla um þetta. Þetta er bara litla sæta Ísland og við erum með ríkisstjórn sem er ekkert svo hræðileg. Ég skal viðurkenna að ég hef alveg verið á þingi með verri ríkisstjórnir, nánar tiltekið á þarseinasta kjörtímabili. Þessi ríkisstjórn er að mínu mati frekar duglaus en hún er ekki beinlínis hræðileg, ég myndi ekki lýsa henni þannig þótt vissulega megi nefna hræðilegan hlut sem a.m.k. einn fyrrverandi hæstv. ráðherra gerði en það var á seinasta kjörtímabili.

Stundum eru stjórnvöld hræðileg. Stundum eru stjórnmálamenn agalegir. Stundum fara þeir blöskrunarlega illa með vald sitt og þeir komast upp með það ef þeir hafa lagalegan grundvöll fyrir því og jafnvel þegar þeir hafa hann ekki. Þetta gerist ítrekað, er ekkert nýtt, hefur gerst í gegnum alla stjórnmálasöguna og mannkynssöguna frá upphafi ritaðs máls og væntanlega lengra aftur í tímann sem við getum eðli málsins samkvæmt ekki lesið um.

Eins og hv. kollegar mínir hafa nefnt er þingflokkur Pírata ekki á móti markmiði málsins. Það er mikilvægt og gott og allt í góðu með það en það þarf að afmarka það betur. Það er of opið. Það eru bara fullkomlega málefnaleg rök og tilefni til að koma fram með þá gagnrýni. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem lög eru sett í flýti í kjölfar neyðarástands. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem lög eru sett í tímaskorti eftir að neyðarástand er komið upp, hvorki hérna né annars staðar. Þetta er alltaf sama sagan, það þarf að drífa sig svo mikið að það þarf að opna fyrir sem flest og síðan skilja það eftir, varanlega í tilfelli eins og þessu.

Orðalag frumvarpsins vekur athygli mína. Þar segir að sveitarstjórn sé heimilt að víkja frá tilteknum ákvæðum, með leyfi forseta, „við stjórn sveitarfélags til að tryggja að sveitarstjórn sé starfhæf við neyðarástand og til að auðvelda ákvarðanatöku“.

Ýmislegt í sveitarstjórnarlögum er til þess að gera ákvarðanatöku erfiðari. Sveitarstjórnir eru valdastofnanir. Það þurfa að vera takmörk á völdum þeirra og þess vegna er ýmislegt um það í sveitarstjórnarlögum sem eru frekar víðfeðmur lagabálkur upp á 134 greinar. Það er mikilvægt að þessi ákvæði séu til staðar til að hamla valdinu. Það á ekki allt að vera auðvelt eða einfalt. Sumt á að vera flókið og erfitt fyrir sveitarstjórnir að gera og allar valdastofnanir vegna þess að þær eru valdastofnanir. Þegar skilyrðið er að auðvelda ákvarðanatöku er ég ósannfærður. Ég þykist vita að ætlun flutningsmanna sé að orðalagið feli í sér að þetta sé einungis hugsað til að auðvelda ákvarðanatöku við neyðarástand. Gott og vel, en þá væri fínt að skýra það aðeins betur. Ástæðan fyrir því að ég vildi nefna þetta sérstaklega er sú að ég hlusta á hv. þingmenn þræta sífellt fyrir að þetta frumvarp feli í sér heimild ráðherra í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga til að gera undantekningar á lögum um sveitarstjórnir. Málflutningurinn sem ég hef heyrt í dag er t.d. sá að þetta varði bara stjórn sveitarfélaga.

Virðulegi forseti. Lögin heita sveitarstjórnarlög og fjalla ekki um neitt annað en stjórn sveitarfélaga. Það er hálfhlægilegt, virðulegi forseti, að segja þetta en ef maður opnar tölvu, nýmóðins upplýsingatæki, velur Control + F og leitar að stjórn finnst það orð í öllu plagginu frá upphafi til enda. Sveitarstjórnarlög fjalla um stjórn sveitarfélaga eðli málsins samkvæmt og eins og sést á nafninu. Það að ætla að það sé þrenging eða nákvæmni að í frumvarpinu sé einungis fjallað um stjórn sveitarfélaga gefur mér tilefni til að efast um að hv. flutningsmenn frumvarpsins nái markmiði sínu með því að niðurnjörva þetta eins vel og sæmir okkur sem þingmönnum. Í þokkabót er þessi breyting varanleg. Þetta er ekki bráðabirgðaákvæði, þetta er reyndar í hinum ýmsu bráðabirgðaákvæðum sem eru þegar í lögunum en þetta er bara breyting á ákvæði í lögunum. Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að ákvarðanir sem ráðherra tæki í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga um að gera undantekningar á lögunum yrðu einungis gildar í fjóra mánuði. Ég myndi lagatæknilega leggja til að það ætti heima í frumvarpstextanum sjálfum frekar en að það komi bara fram í greinargerð. Mér þykir það ekki nógu skýrt. (LínS: Það er í lögunum nú þegar.) Gott og vel, ef hv. þingmaður segir að það sé þegar í lögunum tek ég því.

Óháð því þykir mér alltaf leiðinlegt hvernig stjórnmálamenn falla aftur og aftur í þá gryfju að hugsa með sér: Núna er uppi neyðarástand, það þarf að víkka eitthvað út og opna fyrir einhverjar heimildir, sem ég vil meina að sé yfirleitt tilfellið, og þeir treysta yfirvöldum sjálfkrafa og allt of vel og ætlast til þess að allir aðrir treysti þeim einnig. Þannig er aftur og aftur grafið undan þeim takmörkunum sem eiga við vald almennt.

Nú er hægt að taka stórfelldara dæmi sem á sem betur fer ekki við á Íslandi. Það er það sem gerðist í Bandaríkjunum, landi sem hefur ávallt sett miklu ríkari áherslu á takmarkanir á valdi en nokkurn tíma er gert á Íslandi. Eftir hryðjuverkaárásirnar 11. september 2001 var þjóðin sorgmædd og í áfalli. Hún var reið og það þurfti að bregðast við. Þá voru sett lög sem eru kölluð „USA Patriot Act“, einmitt nefnd það til að gera lítið úr þeim sem myndu ekki styðja við allar þær valdheimildir sem þar voru settar inn. Þar voru sólarlagsákvæði um það sem var algjörlega nauðsynlegt, bara í þann tíma sem var nauðsynlegur o.s.frv. Viti menn, svo fór ekki. Það sem kemur alltaf í ljós er að það er afskaplega þægilegt fyrir yfirvöld að þurfa ekki að lúta þeim takmörkunum sem áður voru fyrir hendi. Þannig er það alltaf, það er eðli valds.

Þótt ég hafi ekki áhyggjur af því að þessi tiltekna ríkisstjórn fari að misbeita þessu valdi á einhvern hræðilegan hátt á ég mjög auðvelt með að trúa því að sú næsta myndi gera það. Það kæmi mér á engan hátt á óvart að næsta ríkisstjórn, öðruvísi samsett en þessi, myndi misnota þetta vald alveg villt og galið og kæmist upp með það. Jafnvel þótt hún kæmist ekki upp með það tæki mörg ár að vinda ofan af skaðanum ef hún ætlaði sér að gera það.

Sveitarfélög á Íslandi eru ansi mörg en ráðherra bara einn yfir málaflokknum. Það felur líka í sér að það er mjög margt í þessum lögum sem hugsanlega er hægt að misnota. Ég get ekki sagt að í Reykjavík, Garðabæ, þessu sveitarfélagi eða hinu sé líklegt að sveitarstjórn vilji fá eða telji sig þurfa að fá undanþágu frá hinu og þessu ákvæði í lögunum, en þau eru nógu mörg til að mjög margir möguleikar bjóðist til þess í lagabálki upp á 134 greinar, sveitarstjórnarlögunum. Það er hægt að nefna nokkra hluti sem kollegar mínir hafa aðeins farið yfir en mér finnst þess virði að fara aðeins yfir. Hérna er nokkuð sem virðist vera algjört tækniatriði, skylda til að halda fundi, í 14. gr. III. kafla um sveitarstjórnarfundi. Í 15. gr. er fjallað um boðun og auglýsingu funda. Það þekkja allir sem hafa verið í minni hluta í stjórnmálum að það er hægt að misnota vald með því að misnota reglur í kringum boðun og auglýsingu funda. Það er hægt að senda ekki rétta dagskrá, senda ekki gögnin, halda manni óupplýstum, halda manni ringluðum eða breyta hlutum með engum fyrirvara. Fólk misnotar svona völd í stjórnmálum á Alþingi og ég hef enga trú á að það gerist ekki í þeim tugum sveitarfélaga sem eru á Íslandi. Það væri barnalegt að halda það.

Í 2. mgr. 17. gr., um ályktunarhæfi og atkvæðagreiðslu, stendur:

„Á sveitarstjórnarfundum ræður afl atkvæða úrslitum mála.“

Það virkar rosalega vel á mig, en í 1. mgr. stendur:

„Sveitarstjórn getur enga ályktun gert nema meira en helmingur sveitarstjórnarmanna sé viðstaddur á fundi.“

Virðulegi forseti. Það eru nákvæmlega svona hlutir sem fólk vill gera undantekningar á í neyðarástandi. Það geta verið málefnaleg rök fyrir því en þess vegna þarf að gera þetta vel. Þess vegna þarf að afmarka betur hverju flutningsmenn þessa frumvarps vilja ná fram.

Hér eru ákvæði um fundargerðir og því um líkt. Fundargerðir eru ekki smáatriði, þær skipta máli til að hægt sé að rekja ákvarðanir ef eitthvað misjafnt kemur upp, ýmist út af fúski, spillingu eða klaufaskap. Ef tímabundið eru gerðar einhverjar undantekningar á því er hægt að misnota það.

Svo er heill kafli hérna, XI. kafli, um stjórnsýslueftirlit með sveitarfélögum. Þetta er allt hugsað til þess að vera takmarkandi fyrir sveitarfélögin. Hér er ákvæði um stjórnsýslukæru. Þetta eru allt hlutir sem geta þvælst fyrir í neyðaraðstæðum og þess vegna er mikilvægt að við séum með á hreinu hvað það er sem við erum að fara að setja í lög. Ég nefni 116. gr., um vanrækslu sveitarfélaga. Ég hef enga sérstaka ástæðu til að ætla að tiltekin sveitarfélög hafi áhuga á að losna við einhver tiltekin ákvæði. Vandinn er einfaldlega sá að þetta frumvarp er of opið. Það er allt og sumt.

Í lokin vil ég segja að jafnvel þótt þessar áhyggjur séu ekki á rökum reistar hér og nú í þessu máli, undir þessum kringumstæðum, með þessa ríkisstjórn og þau sveitarfélög sem eru hér, eigum við ekki að venja okkur á það almennt að þegar upp kemur neyðarástand eða rík tímabundin þörf að rjúka til og opna heimildir fyrir yfirvöld með þessum hætti. Það er bara slæmur ávani fyrir þær sakir einar að vera ávani. Það er það. Það getur alveg verið mikilvægt að bregðast hratt við og búa til einhverjar heimildir til að bregðast við neyðarástandi. Við þekkjum það sennilega best úr hruninu hér á Íslandi en við eigum ekki að vera værukær. Við eigum ekki að láta eins og það sé einhver ímyndun að stjórnmálamenn misfari með vald sem þeim er falið. Það er raunveruleikinn hér eins og hefur alltaf verið alls staðar og verður alltaf. Það er barnaskapur, virðulegi forseti, að halda eitthvað annað, værukærð í skásta falli.

Ég ætla að ljúka þessu hér. Ég vona að málið fái umfjöllun í nefnd. Aftur lýsi ég yfir stuðningi við markmið frumvarpsins. Mér finnst bara að það þurfi að gera þetta betur, það er allt og sumt.