150. löggjafarþing — 73. fundur,  13. mars 2020.

staðgreiðsla opinberra gjalda og tryggingagjald.

659. mál
[11:16]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Við í Samfylkingunni styðjum þessa aðgerð og höfum fullan skilning á því að það þurfi að gera þetta með miklum hraða vegna þess að það eru dagsetningar fram undan, á mánudaginn hreinlega, sem þarf að taka tillit til. En ég geri ráð fyrir því, forseti, að þetta sé ekki eina aðgerðin sem er í burðarliðnum hjá hæstv. ríkisstjórn og ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hvað með frestun á greiðslu virðisaukaskatts? Þar er dagsetning 5. apríl. Eigum við von á því að fá að taka á slíku máli strax eftir helgi?

Einnig vil ég spyrja hæstv. ráðherra um stöðu fólks sem missir vinnuna þrátt fyrir aðgerðir ríkisstjórnarinnar. Við vitum að atvinnuleysi fer vaxandi. Sumir hafa nú þegar misst vinnuna. Er von á sambærilegum aðgerðum fyrir fólkið sem missir vinnuna, eins og fyrir fyrirtækin, til að vinna gegn atvinnuleysi? Hefur það t.d. verið rætt innan ríkisstjórnarinnar að fólk sem missir vinnuna fái frest á greiðslu vaxta og afborgana af húsnæðislánum á meðan faraldurinn gengur yfir? Er möguleiki að gefa bönkum og lífeyrissjóðum einhvers konar tilmæli í þá veru? Er slík aðgerð að mati hæstv. ráðherra möguleg?