150. löggjafarþing — 76. fundur,  17. mars 2020.

aðstoð við skjólstæðinga TR.

[13:57]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Allir þeir málaflokkar sem heyra undir félagsmálaráðuneytið snúa að hópum sem eru í mjög viðkvæmri stöðu og þarfnast í rauninni sérstakrar umgjarðar. Það er ánægjulegt frá því að segja að við höfum verið að vinna að þessu síðustu sólarhringa, og ég kynnti það m.a. fyrir velferðarnefnd í gær, með hvaða hætti við ætluðum að ná utan um þetta verkefni. Hv. þingmaður nefndi einn hóp sem sannarlega þarf að vakta og líka allt í kringum landið miðað við það að aðstæður geta átt eftir að þyngjast talsvert meira áður en fer að létta til. Þess vegna gengum við frá því formlega í morgun, þ.e. félagsmálaráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga og sveitarstjórnarráðuneytið, að setja upp sérstakt viðbragðsteymi sem leitt verður af þessum þremur aðilum, með starfsfólki frá öllum þessum aðilum, samhliða bakvarðasveit sem er verið að setja af stað þannig að hægt verði að kalla út bakverði í félagsþjónustu fyrir þessa viðkvæmu hópa og að tekið sé frá fjármagn í sérstakan viðbragðssjóð til að bregðast við.

Í þessum hópi verða fulltrúar sveitarfélaga vegna þess að við verðum að hafa sveitarfélögin með. Þar er nærþjónustan, m.a. allt í kringum landið af því að þingmaðurinn talaði um landsbyggðina. Þetta viðbragðsteymi mun funda í fyrsta skipti á morgun. Í þessari vinnu munum við tengja alla þá hagsmunaaðila sem tengjast inn í þennan málaflokk, hvort sem það er Öryrkjabandalagið, Þroskahjálp, Landssamband eldri borgara, sveitarfélögin allt í kringum landið eða önnur af þeim fjölmörgu félagasamtökum sem sinna mikilvægum störfum í íslensku samfélagi. Það mun svo sannarlega reyna á það næstu vikurnar hvernig okkur tekst að halda utan um þetta í sameiningu. Þetta verður áskorun en við ætlum í gegnum þetta og við ætlum í gegnum þetta í góðu samstarfi við alla þessa aðila og líka við velferðarnefnd þingsins eins og ég áréttaði á fundi mínum með nefndinni í gær.