150. löggjafarþing — 79. fundur,  20. mars 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

664. mál
[12:25]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Með nokkur atriði hefur tekist vel til með lagfæringar á milli umræðna í hv. velferðarnefnd. Sýnist mér til að mynda að ágætlega hafi tekist til við útfærslu á hækkuðu þaki. Eins og frumvarpið kom fram var miðað við að heildarsamtala launa og bóta færi aldrei upp fyrir 80% af meðaltekjum þriggja mánaða á undan. Nú hefur þetta verið fært upp í 90% og öll laun fyrir neðan 400.000 kr. á mánuði njóta 100% bótaréttar hvað samtöluna varðar.

Í þessu er annað atriði sem var töluvert rætt við 1. umr., það sem kom inn sem 650.000 kr. þak samkvæmt frumvarpinu. Nefndin gerir tillögu um að þetta þak verði fært upp í 700.000 kr. Ég tel að þarna hefði nefndin áhættulítið getað gengið töluvert lengra sem væri skynsamlegt vegna þeirra stóru hópa innan atvinnulífsins sem eru í launabilunum rétt ofan við þessi mörk. Þá verða starfsmenn sem fara í lækkað starfshlutfall búnir að taka á sig lækkun niður í 90%, sem er gott og blessað, en til viðbótar kemur 100% skerðing eftir að 700.000 kr. markinu er náð.

Mig langar að lesa upp svar frá velferðarráðuneytinu við spurningu sem hv. velferðarnefnd sendi af fundi sínum í gær. Svarið barst rétt í þessu og þar segir, með leyfi forseta:

„Ef þakið yrði afnumið myndi kostnaður Atvinnuleysistryggingasjóðs sveiflast frá 200 millj. kr. og upp í 456 millj. kr. fyrir hverja 5.000 samninga (sem gerir þá tæplega 2 milljarða fyrir 20.000 samninga) eftir því hvert starfshlutfall umsækjenda verður en ætla má að starfshlutfall þeirra sem eru í efstu tekjubilunum sé að jafnaði 100%.“

Ég held að í þeirri heildarmynd sem blasir við okkur núna væri 2 milljörðum mjög vel varið til að styðja við það að við þessum hópum blasti ekki sú staða að sá kostur væri bestur að fara beint á þriggja mánaða uppsagnarfrest og vona síðan hið besta.

Það vakti athygli mína í sjónvarpsfréttum Stöðvar 2, held ég að hafi verið, í gærkvöldi þegar hæstv. félagsmálaráðherra Ásmundur Einar Daðason kom í viðtal og sagði að í upphafi hefði viðmið ríkisstjórnarinnar verið að þessi tiltekna aðgerð myndi kosta 1,5 milljarða kr. Ég vona að sú tala hafi verið á misskilningi byggð í beinni útsendingu því að ef viðmið ríkisstjórnarinnar var að þetta myndi ekki kosta nema 1,5 milljarða er ég hræddur um að mælikvarðarnir og viðmiðin séu mjög bjöguð. Eins og ég segi vona ég að þetta hafi verið á misskilningi byggt eins og stundum getur orðið en í viðtalinu kom fram það sem ég held að hafi komið fram í framsögu hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur áðan, að kostnaðurinn lægi einhvers staðar ofan við 12 milljarða núna. Mér sýnist hv. formaður velferðarnefndar nikka kolli hvað það varðar.

Ef verðmiðinn á þessum aðgerðum fer úr 12 í 14 milljarða við það að afnema þakið eða hækka það allnokkuð held ég að til mikils væri unnið hvað það varðar að halda við þessum stéttum sem eru vissulega á ágætislaunum en jafnframt í viðkvæmu ráðningarsambandi hvað það varðar að tekjufall verður svo afgerandi að þessar stéttir munu þurfa sérstaka umhugsun um það hvort ekki sé betra að fara strax á atvinnuleysisbætur. Ég held að viðbótarkostnaðurinn sé ekki svo mikill að taka ætti einn snúning í viðbót, ef svo má segja, á þessu tiltekna atriði.

Ég fagna því sérstaklega að neðri mörk starfshlutfallsviðmiðsins hafi verið færð úr 50% niður í 25%. Ég held að þetta sé algjörlega nauðsynlegt. Það sjá allir sem fylgjast með fréttum og taka á móti skilaboðum sem þingmönnum berast úr atvinnulífinu að hópur þeirra fyrirtækja sem ekki hafa einu sinni burði til að borga 25% er yfirdrifið nógu stór. Ég held því að það hafi verið góð breyting að fara þó niður í 25% í breytingartillögum nefndarinnar og fagna ég því.

Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki sannfæringu fyrir því að skynsamlegt sé að stytta líftíma breytingarinnar eins og gert er hér, að færa gildistíma hennar frá 1. júlí 2020 að 1. júní 2020. Líftími frumvarpsins er þá einhvers staðar í námunda við 70 daga í staðinn fyrir rétt um 100. Við verðum að horfa til þess að framlenging komi þegar þar að kemur. Einmitt þessi stytting ætti að veita mönnum kjark til að ganga lengra hvað aðgerðir varðar og vil ég þá sérstaklega nefna þetta þak sem er í öllu samhengi mjög hóflegt.

Ég skildi það þannig við 1. umr. að 650.000 kr. talan, sem var í upphaflega frumvarpinu, hafi verið óvísitölubætt frá svipuðum aðgerðum í tengslum við bankahrunið. Ég er ekki með ártal þeirrar aðgerðar í kollinum en ef við gefum okkur að það sé árið 2010 er 650.000 kr. vísitölubætt tala til dagsins í dag væntanlega einhvers staðar í námunda við milljón en ekki 700.000 eins og lagt er til í nefndinni að hækka þetta viðmið í.

Ég ítreka að ég held að gerðar hafi verið prýðilegar breytingar í nefndinni heilt yfir en þetta þak sem er þá fært úr 650.000 í 700.000 er ég hræddur um að gæti reynst fyrirtækjum landsins og ríkissjóði dýrt þegar málið verður gert upp síðar. Ef raunverulegur kostnaður við að afnema þakið, eins og kemur fram í svari velferðarráðuneytisins við spurningum velferðarnefndar, er upp á um 2 milljarða miðað við 20.000 samninga held ég að skynsamlegt væri að hækka það umtalsvert, ef ekki afnema það að fullu, og aldrei minna en sem nemur því að það væri vísitölubætt frá þeim tíma sem viðmiðið var sett árið 2010, ef það er ártalið. Ég ítreka að ég er ekki með það í kollinum.

Þetta er það sem ég vildi segja við þessa umræðu og lýsa áfram yfir því að Miðflokkurinn — nú berast mér upplýsingar um að viðmiðið sé frá 2009 og uppreiknað væri það 950.000 kr. miðað við daginn í dag. Ég sé að hv. þm. Helga Vala Helgadóttir, formaður velferðarnefndar, nikkar hér úti í sal þannig að ég tel að ef kostnaður við að afnema það sé 2 milljarðar miðað við þær forsendur sem velferðarráðuneytið gefur sér væri talan væntanlega eitthvað lægri við að færa það upp í 950.000. Ég tel að skynsamlegt væri að við gengjum aldrei skemmra en það, en ég ítreka þá tillögu mína að við ættum að horfa til þess að afnema það að fullu á meðan við erum að átta okkur á stöðunni. Þetta verður sérstaklega áhættuminna í ljósi þess að búið er að stytta líftíma frumvarpsins.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta í bili en ítreka að við í Miðflokknum styðjum hér eftir sem hingað til góðar tillögur sem koma fram til lausnar á málunum. Málið hefur batnað í meðförum nefndarinnar en ég held að það væri skynsamlegt að ganga nokkrum skrefum lengra hvað varðar það tiltekna atriði sem snýr að hámarksþakinu.