150. löggjafarþing — 82. fundur,  23. mars 2020.

fjáraukalög 2020.

695. mál
[14:09]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef áður sagt að þetta sé ekki tími pólitískra yfirboða en ég verð að viðurkenna að þegar kemur að fjárfestingaráformunum í þessum pakka hefði ég viljað sjá að við gætum gengið lengra en þetta. Við verðum að hafa það í huga að við höfum verið að svelta innviðafjárfestingu árum saman, raunar allar götur frá hruni. Við höfum verið langt undir meðaltali í fjárfestingu hins opinbera. Ég átta mig á því að fyrirvarinn er skammur núna en ég hefði búist við því að það væri töluverður listi af opinberum framkvæmdum sem hægt væri að ráðast í. Mig langar að nefna nokkur dæmi. Við erum með frumvarp frá hæstv. samgönguráðherra um einkafjármögnun m.a. tveggja framkvæmda sem ættu að geta farið af stað á þessu ári. Nú kann að vera einhver óvissa um hvernig hægt sé að standa að eða fjármagna slík verkefni en það væri alla vega eðlilegt að veita svigrúm til þess að hægt væri að taka þau beint í gegnum ríkissjóð ef með þyrfti. Það væri ágætt að heyra í fyrra svari sjónarmið hæstv. ráðherra hvað þetta varðar.