150. löggjafarþing — 83. fundur,  26. mars 2020.

sérstakt tímabundið fjárfestingarátak.

699. mál
[14:13]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ánægður að heyra þennan tón um mikilvægi þessa máls og ég skil vel að menn séu kappsamir um að ganga jafnvel lengra á einstaka sviðum. Þá er bara mitt aðalinnlegg inn í þá umræðu að menn séu raunsæir af því að nú eru þrír mánuðir liðnir af árinu og við eigum eftir að fara í fjármálaáætlun og fjárlög fyrir næsta ár. Það er í sjálfu sér ekkert unnið með því að setja út fjármuni sem munu ekki koma að gagni fyrr en á næsta ári. Það er þá í raun og veru umræða sem á heima vegna fjárlagaársins 2021. Þetta segi ég þegar ég heyri tölur eins og 30 milljarða í viðbót eða eitthvað slíkt. Það held ég einfaldlega eftir að hafa setið yfir þessu, þetta skjal fæðist ekki án undirbúnings, að séu algerlega óraunhæfar tölur.

Ég vil segja varðandi hallann á fyrri tíð, borið saman við það sem er að gerast núna, að menn verða aðeins að skoða það hvernig hallinn varð til 2009, hvernig hann var saman settur. Ríkið var þar nauðbeygt til að stíga inn í fjármálakerfið og verja gríðarlega háum fjárhæðum til að endurreisa fjármálakerfið sem var stór hluti af hallanum á þeim tíma. Ef menn hafa áhyggjur af því að hallinn verður ekki nógu mikill á þessu ári þá held ég að það muni fljótt renna af mönnum vegna þess að allt sem við sjáum, síðast með sviðsmyndir frá Seðlabankanum í gær, eru vísbendingar um að við erum að fara í mjög hressilegan halla. Ef menn vilja bæta ofan á þann halla einhverjum 30, 40, 50 milljörðum, eins og ég skynja á umræðunni hér, þurfa þeir aðeins að staldra við og spyrja sig: Hvernig á að fjármagna þetta allt saman? Það þarf að vera einhver undirliggjandi hugsun um það hvernig við eigum að fjármagna hallann sem er óumflýjanlegur, bara út af því sem leiðir af tekjuhruni hjá ríkinu og stórauknum útgreiðslum úr almannatryggingum. Ef menn ætla síðan að fara að bæta í sértækar aðgerðir einhverjum upphæðum sem eru langt umfram það sem við höfum verið að leggja til þá geta menn farið að setja í ákveðna óvissu fjármögnun á þessu öllu saman.