150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

683. mál
[11:56]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst ætla ég að vera með örstuttan útúrdúr. Þingmaðurinn ræddi mikilvægi þess að hafa samráð þvert yfir pólitíska sviðið og ná breiðri samstöðu um aðgerðir af þessu tagi. Þetta ræddum við líka þegar þessar tillögur komu fram og það var gagnrýnt að ekki væri farin sú leið sem var farin í Danmörku, að hafa alla flokka uppi á sviði að kynna sameiginlegar tillögur allra flokka. Mér dettur þetta í hug vegna þess að ég sá um helgina að nýsjálenska þingið er búið að að setja í gang neyðaráætlun sem felst í því að sérstök þingnefnd heldur utan um viðbrögð við Covid. 11 þingmenn sitja í henni, sex úr stjórnarandstöðu og formaður nefndarinnar er úr stjórnarandstöðu. Þetta er ein leið til að ná að gulltryggja samstöðu um aðgerðirnar, að önnur hlið stjórnmálanna leggi fram tillögurnar og hin hliðin vinni síðan úr þeim á þingi. Þó að ég sé þess fullviss að hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar hafi unnið starf sitt af heilindum og metnaði er hægt að gera betur. Þetta var útúrdúrinn.

Mig langar að spyrja út í Allir vinna og hvort þingmaðurinn geti frætt mig um það hvaða greiningar búi að baki frumvarpinu. Sá fókus sem var á byggingariðnaðinn eftir hrun 2008 var vegna þess að sá geiri var botnfrosinn á þeim tíma. Sýna einhverjar greiningar að þar sé akkúrat brýnast að bregðast við í dag? Hvernig rímar það saman að í nefndaráliti sé talað um að við frekari útfærslu þurfi að leggja áherslu á greinar þar sem konur eru fjölmennar (Forseti hringir.) en á sama tíma sé bætt við grein þar sem konur eru ekki fjölmennar, á tímum (Forseti hringir.) þar sem greinar þar sem konur eru fjölmennar eru vegna samkomubannsins í botnfrosti (Forseti hringir.) og fá ekki að fylgja með?

(Forseti (GBr): Forseti biður hv. þingmenn að virða tímamörkin.)