150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

683. mál
[12:11]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur fyrir ágæta ræðu og þakka henni jafnframt fyrir samstarfið í hv. efnahags- og viðskiptanefnd sem var ekki sammála í öllum atriðum eins og þingmaðurinn kom inn á. Þær lendingar sem nefndin á endanum stendur fyrir eru mislangt frá áhersluatriðum þeirra sem að álitinu standa. Það kemur ágætlega fram í þeim fyrirvörum sem hv. þingmenn hafa ritað.

Mig langar aðeins að spyrja hv. þingmann út í Allir vinna sem þingmaðurinn kom raunar inn á í andsvari áðan. Það er rétt að núna er kynjaskekkja í úrræðinu eins og eftir hrun. Þingmaðurinn nefndi réttilega starfsgreinar sem væri mögulegt að koma til móts við. Sér þingmaðurinn fyrir sér eitthvert fyrirkomulag þar sem væri sérstaklega hægt að koma til móts við þær stéttir sem hún nefndi? Nú er til að mynda hárgreiðslufólk að stærstum hluta til konur og þær stéttir eru í sérstöku banni vegna nándar. Hefur þingmaðurinn hugmyndir um frekari aðgerðir eins og til að mynda meiri launabætur eða einhvers konar ívilnanir (Forseti hringir.) til þessara greina þegar þær geta farið af stað?