150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

683. mál
[13:15]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Frú forseti. Ég þakka þessa umræðu. Margt gott hefur komið fram í því mikilvæga máli sem snýr að aðgerðum til að mæta þeim efnahagslegu áhrifum sem við stöndum frammi fyrir vegna heimsfaraldursins, Covid-19. Við í Miðflokknum styðjum að sjálfsögðu þetta mál. Formaður flokksins, hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, hefur farið yfir þá fyrirvara sem við gerum við málið og ég ætla ekki að fara nánar út í þá hér.

Það er margt ágætt í málinu. Þarna kemur fram greiðslufrestur sem er mjög mikilvægur við þessar erfiðu kringumstæður, t.d. gagnvart staðgreiðslunni, og gagnast mörgum. Vandinn er stór og kannski kemur fljótlega í ljós hversu umfangsmikill hann er þegar styttist í gjalddaga fyrirtækja á greiðslu virðisaukaskatts. Það verður ágætismælikvarði á umfang vandans. Ég óttast því miður að við gætum séð þá hversu alvarlegur þessi vandi er. Það er líka spurning með greiðslufrest á tilteknum opinberum gjöldum og hvort hreinlega þurfi að koma til þess á einhverjum tímapunkti að fella þau niður. Við þekkjum sjálf að greiðslufrestur er tímabundin lausn og síðan kemur aftur að gjalddaga og skuldina þarf að greiða. Spurningin er hvort það verði eitthvað auðveldara fyrir þessi fyrirtæki að greiða hana síðar, maður óttast að svo verði ekki og við sjáum fram á að fara þurfi í einhvers konar niðurfellingu. Það er vandasamt vegna þess að mörg fyrirtæki munu reyna allt hvað þau geta til að halda starfsfólkinu og komast í gegnum þessa erfiðleika án ríkisaðstoðar. Fyrir það ber að þakka. Það er dapurlegt að svo virðist sem fyrirtæki sem standa ágætlega ætli að nýta sér þessa hlutastarfaleið til að spara sér upphæðir núna í aprílmánuði. Hins vegar eru ágæt fyrirtæki sem hefðu auðveldlega getað nýtt sér þessa leið, sparað einhverjar milljónir, en gera það ekki heldur ætla að axla ábyrgðina. Þetta er samfélagslegt atriði, það er höfðað til samvisku manna, að fyrirtækjaeigendur meti hvað þeir geti gert á eigin spýtur án þess að þurfa að leita eftir ríkisaðstoð. Gleymum samt ekki að tugþúsundir landsmanna sem starfa í einkageiranum hafa nú flykkst á hlutabætur sem eru greiddar úr ríkissjóði og það er til viðbótar við þá tæplega 11.000 einstaklinga sem voru fyrir án atvinnu. Nú er svo komið að laun þorra starfsmanna stórfyrirtækja, einkafyrirtækja, eru að stórum hluta greidd af skattgreiðendum. Gleymum því ekki að það er almenningur sem hleypur undir bagga með þessum fyrirtækjum.

Til viðbótar er verið að veita einkafyrirtækjum fordæmalausan aðgang að skattfé til að lifa af. Við sýnum þessu skilning vegna þess að það er mikilvægt að halda í ráðningarsambönd og að fólki verði ekki sagt upp. Alvarlegasta áfallið er að vera sagt upp en það að vera settur í hlutastarf er mun skárri leið. Hins vegar verður að höfða til samvisku stórra fyrirtækja. Ég vil nefna eitt fyrirtæki, Bláa lónið, sem hefur verið í fréttum fyrir að nýta þessa leið til að halda ráðningarsambandi og þurfa ekki að segja upp fólki en þetta er fyrirtæki sem greiddi örfáum hluthöfum arð upp á 6,6 milljarða á tveimur árum. Í lok árs 2018 átti fyrirtækið rúma 12 milljarða í eigin fé. Ég held að það sé rétt að koma því á framfæri að stórfyrirtæki mega ekki hafa frítt spil hvað þetta varðar. Við erum í þessu öll saman og þá verða menn að horfa til þess hvað þeir geta gert til að koma til móts við starfsmenn sína án þess að fá ríkisaðstoð. Þegar upp er staðið er þetta sameiginlegur sjóður allra landsmanna.

Varðandi skilyrðin í þessum efnum hefur hér verið rætt um að Skatturinn eigi að gegna lykilhlutverki þegar kemur að greiðslufrestum og þá er afar mikilvægt að þessi framkvæmd sé almenn og einföld. Það skiptir verulegu máli. Skattyfirvöld verða að átta sig á því að það verður að sýna skilning og ganga ekki hart fram í því að innheimta opinber gjöld þegar menn vita hver staðan er. Þetta er að vissu leyti lagt í hendur skattyfirvalda.

Ég vil nefna sérstaklega þá leið sem hér hefur verið nefnd, Allir vinna, þ.e. endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna vinnu á byggingarstað. Hún hefur verið útvíkkuð til að ná yfir bílgreinaþáttinn. Mér hugnast sú leið vel og hún hefur sýnt að hún hefur borið árangur. Við höfum töluverðar væntingar til þess að þeir sem hafa tök á að fara í framkvæmdir geri það því að þessi leið sé ákveðinn hvati í þeim efnum.

Hið sama á við um séreignarsparnaðarúrræðið. Tilgangurinn er að örva efnahagslífið, að fólk hafi þá meiri peninga milli handanna sem það getur síðan nýtt til að kaupa vöru og þjónustu. Í þeim efnum er nauðsynlegt að hvetja fólk til að kaupa íslenskt og velja íslenskt. Það skiptir verulegu máli. Við sjáum í þeim hamförum sem dynja yfir efnahagskerfi heimsins hvað íslenskur landbúnaður er okkur gríðarlega mikilvægur. Við eigum að styðja við hann með öllum tiltækum ráðum og velja íslenskt.

Ég vil aðeins koma að greiðslu til öryrkja, svokallaða orlofsuppbót upp á 20.000 kr. sem kemur ekki til skerðingar. Það er að sjálfsögðu fagnaðarefni. Sú aðgerð er líka hugsuð að töluverðu leyti til að örva efnahagslífið, þ.e. að þeir sem fá þessa greiðslu nýti hana í neyslu sem síðan fer út í hagkerfið. Þá má spyrja hvort ekki væri eðlilegt að eldri borgarar fengju sams konar greiðslu, einhvers konar uppbót á ellilífeyrisgreiðslu sína sem kemur um mánaðamót, að það kæmi einhver aukagreiðsla ofan á hana. Ég hefði talið það eðlilegt. Ég talaði fyrir því í fjárlaganefnd en það varð ekki niðurstaðan innan nefndarinnar. Hins vegar flytjum við í stjórnarandstöðunni breytingartillögu þess efnis að ellilífeyrisþegar fái sömu greiðslu og öryrkjar, ekki síst til að örva hagkerfið sem er gríðarlega mikilvægt í þessum aðstæðum.

Ég vil næst aðeins víkja að svokölluðum brúarlánum, viðbótarrekstrarlánum til fyrirtækja, og hlut Seðlabankans í þeim efnum. Ýmsar spurningar vakna um hvernig þetta verður í framkvæmd. Í fyrsta lagi þarf framkvæmdin að vera einföld. Það kom fram hjá umsagnaraðilum að þetta gæti hugsanlega verið of flókið og auk þess hafa umsagnaraðilar eins og í ferðaþjónustunni haft áhyggjur af því að ekki sé nægilegur skilningur innan bankakerfisins hvað þetta varðar. Eftir efnahagshrunið hefur bankastarfsmönnum og þeim sem veita lán verið uppálagt að gæta fyllstu trygginga þannig að viðhorfið í bankakerfinu er svolítið stíft. Það þarf að huga að því að innan bankakerfisins sé fullkominn skilningur á vandanum. Ég hef reifað þessar áhyggjur mínar í starfi innan nefndarinnar og að mínu mati höfum við í nefndinni náð þokkalega góðri lendingu um skilyrði fyrir því að lánafyrirgreiðslan verði veitt. Þar skiptir miklu máli að farið sé yfir stöðu fyrirtækjanna með tilliti til þess, eins og lagt er upp með, að fyrirtækin greiði sér ekki arð og standi ekki fyrir kaupum á eigin bréfum. Ég hef líka viðrað þá hugmynd hvort ekki sé eðlilegt að fyrirtæki lækki launakostnað hjá yfirstjórn og forstjórum í þessu árferði. Þá höfðar maður meira til samvisku stjórnenda þessara fyrirtækja.

Varðandi það sem snýr að Seðlabankanum veltir maður fyrir sér með hvaða hætti Seðlabankinn ætlar að samræma hlutverk sitt sem ábyrgðaraðili á lánveitingum til eftirlitsskyldra aðila. Það kemur í ljós að eftirlitið er komið á sömu hönd og lánveitandinn. Hvernig samrýmast þessi ólíku verkefni, t.d. þegar lántaki þarf að skilmálabreyta láni? Svo má alltaf spyrja hver gæti hagsmuna skattgreiðenda. Það skiptir verulegu máli. Ef bankinn er nokkurs konar skaðlaus milliliður spyr maður hvernig hann sjái fyrir sér að gæta hagsmuna skattgreiðenda og hvernig hann verður virkur í þeim efnum. Síðan er spurning hvernig Seðlabankinn ætlar að tryggja að sá hluti lánsins sem hann ber ábyrgð á verði á lægri vöxtum en önnur lán. Sum fyrirtæki eru í verri stöðu vegna þess að þau hafa verið að greiða sér arð og kaupa eigin bréf og síðan standa þau frammi fyrir háum launagreiðslum til starfsmanna og eigenda. Hvernig ætlar Seðlabankinn að tryggja að úrræðið verði ekki notað til að bjarga þessum fyrirtækjum? Þó að það sé girðing varðandi arðgreiðslurnar eiga skattgreiðendur ekki að bera ábyrgð á því ef stjórnun fyrirtækis hefur verið óábyrg hvað þetta varðar. Skilmálarnir verða að tryggja hagsmuni skattgreiðenda. Það er mjög mikilvægt. Maður heyrir úti í samfélaginu að tortryggni ríkir gagnvart úrræðinu vegna þessa og þó að úrræðið sem slíkt sé mikilvægt þarf að tryggja að tortryggni verði ástæðulaus og að fullkomið gagnsæi ríki.

Bandaríkjaþing samþykkti gríðarlegan björgunarpakka en þar er sett það skilyrði að það sé gert opinbert hvaða fyrirtæki njóti slíkrar lánafyrirgreiðslu þannig að almenningur viti nákvæmlega hvaða fyrirtæki það eru. Ég hefði talið eðlilegt að svo væri hér, að almenningur vissi hvaða fyrirtæki fengju þessa lánafyrirgreiðslu.

Ef vanskil verða á brúarlánunum má enn fremur spyrja hvernig Seðlabankinn ætli að tryggja hagsmuni skattgreiðenda, ganga að tryggingum o.s.frv. Þetta er allt lagt í hendur bönkunum en hver tekur ákvarðanirnar? Það þarf að liggja fyrir. Kemur Seðlabankinn að þeirri ákvörðun? Samræmist það eftirlitshlutverki bankans? Þetta eru allt spurningar sem er rétt að hafa í huga. Ég hefði persónulega talið eðlilegt að Alþingi færi yfir samninginn sem á að gera milli Seðlabanka og fjármálafyrirtækjanna og að hann yrði gerður algjörlega opinber og gagnsær þannig að við þyrftum ekki að horfa upp á leyndarhyggju í þessum efnum. Það gerðist í bankahruninu, menn tóku þar ákvarðanir sem ekki hefur verið nokkur leið að fá upplýsingar um, t.d. um eignasafn Seðlabankans og Hildu ehf. Það verður að ríkja gagnsæi. Auk þess verður að velta fyrir sér hvort ekki sé eðlilegt að gert verði opinbert nákvæmlega hvaða fyrirtæki fá lánafyrirgreiðslu. Ég legg þó áherslu á að hún er nauðsynleg og að við í Miðflokknum styðjum þetta úrræði. Við viljum hins vegar að hugað sé að því að skattgreiðendur eru að veita einkafyrirtækjum lán og þess vegna þarf að hafa allt eftirlit og alla framkvæmd uppi á borðum.

Mér finnst vera allt of lítið rætt um einstaklingana, almenning, í þessum aðgerðum. Það verður að hjálpa einstaklingum sem lenda í greiðsluerfiðleikum og fresta afborgunum af lánum eins og Samtök fjármálafyrirtækja hafa gert gagnvart fyrirtækjum í landinu. Við megum ekki gleyma einstaklingunum. Það er algjörlega nauðsynlegt að útvíkka greiðslustöðvunarákvæðið í gjaldþrotalögunum, það þarf að fækka gjaldþrotum í lengstu lög og ganga ekki hart að einstaklingum í slæmri stöðu heldur gefa þeim tækifæri til að skuldbreyta lánum. Ég legg á það áherslu að það verður að hjálpa fólki sem lendir í miklum erfiðleikum vegna þeirra fordæmalausu aðstæðna og í raun efnahagslegu hamfara sem er skellt á okkur og alla heimsbyggðina.

Auk þess þarf að fylgjast vel með verðbólgunni. Það er verið að auka peningamagn í umferð sem getur valdið meiri verðbólgu. Við þurfum að fylgjast mjög vel með þessu. Seðlabankinn hefur ekki miklar áhyggjur enn sem komið er og það er svo sem ágætt, jákvæðar fréttir í þessari stöðu, en engu að síður þurfum við að vera vel á verði. Ef þetta dregst verulega á langinn, barátta okkar við þessa veiru og allt sem henni fylgir, er alveg ljóst að við verðum að vera a.m.k. undirbúin fyrir það að vísitalan verði tekin úr sambandi og heimilin varin með þeim hætti.

Ég bendi á að Miðflokkurinn hefur lagt fram tillögur sem ég vona að ríkisstjórnin nýti sér. Það þarf að koma aftur inn í þessar björgunaraðgerðir innan ekki svo langs tíma. Auk þess hefur minni hlutinn lagt fram verulega góðar tillögur sem m.a. lúta að húsnæðisöryggi landsmanna. Það er nokkuð sem ríkisstjórnin hefur ekki horft í. Við í minni hlutanum erum með sérstaka breytingartillögu um að leggja 3 milljarða kr. í vaxta- og húsnæðisbætur. Það er mikilvægt úrræði sem er algjörlega nauðsynlegt að fara í vegna þess að það má ekki gleyma heimilunum þegar við erum að hjálpa fyrirtækjunum. Þetta tvinnast allt saman. (Forseti hringir.) Vonandi hugnast okkur öllum að standa vel að aðgerðunum fram undan í mikilli og góðri sátt og samvinnu.