150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

683. mál
[13:44]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla alls ekki að lengja umræðuna en eftir að hafa tekið þátt í störfum nefndarinnar í þessu mikilvæga máli um aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru vil ég gera eins og aðrir hv. nefndarmenn í góðri umræðu um niðurstöðu nefndarinnar og þakka fyrir þá samvinnu sem náðist í nefndinni, formanni nefndarinnar sérstaklega fyrir að leggja sig einstaklega fram um að ná samstöðu um álitamálin. Það er ekki einfalt á þessum skamma tíma. Það birtist í því að allir nefndarmenn skrifa undir þetta álit og það er mjög mikilvægt þrátt fyrir að margir hverjir hefðu viljað ganga lengra eins og þeir hafa gert grein fyrir í ræðum sínum.

Ég ítreka, virðulegi forseti, að þetta eru ekki lokaaðgerðir. Það kemur skýrt fram í nefndaráliti og ég umber og virði allar þær hugmyndir sem hafa komið fram um að sú staða kunni að vera uppi að lengra þurfi að ganga. Hér eru mjög mikilvægar aðgerðir, met ég, þar sem meginmarkmiðið er að verja störfin, fyrirtækin og efnahag heimilanna. Þetta er allt samofið í efnahagshringrásinni þar sem eru tvær meginstoðir, fyrirtæki og heimili. Allar þessar aðgerðir hér miða í þá átt og það er mikilvægt. Ég legg áherslu á að við eigum samt um leið að vakta það hvern dag í þessari miklu óvissu hvað þurfi að gera meira og hvar þurfi að ganga lengra. Að því sögðu á þetta mál hér samsvörun við þau mál sem við ræðum á eftir og ég mun hafa framsögu um sem er fjáraukalagafrumvarp, útgjaldaheimildir og heimildir til að fara í fjárfestingarátak ásamt þingsályktunartillögu um það mál.

Ég þakka þá góðu umræðu sem hefur verið hér í dag.